Enski boltinn

Ber­batov um Pochettino og United: Nýr stjóri mun ekki breyta því hvernig leik­mennirnir spila

Anton Ingi Leifsson skrifar
Mauricio Pochettino er sagður spenntur fyrir því að taka við Manchester United.
Mauricio Pochettino er sagður spenntur fyrir því að taka við Manchester United. Getty/Justin Setterfield

Dimitar Berbatov, fyrrum leikmaður Manchester United, segir að það sé erfitt að stöðva orðrómana um Mauricio Pochettino og Man. Utd eftir ummæli hans í Monday Night Football á Sky Sports á dögunum.

Pochettino hefur verið orðaður við Man. Utd að undanförnu en dapurt gengi þeirra rauðklæddu hefur sett mikla pressu á stjórann, Norðmanninn Ole Gunnar Solskjær.

Sá búlgarski segir hins vegar að það þurfi mikið annað að breytast en bara gengi þjálfarans með liðið og skýtur aðeins á leikmenn liðsins.

„Ef það er eitthvað rétt í orðrómunum um Mauricio Pochettino þá erfitt að dæma Manchester Utd. Þegar liðið spilar illa þá skellist skuldin á þjálfarann og það hefur alltaf verið þannig,“ sagði Berbatov í samtali við Betfair og hélt áfram.

„Ég sá Pochettino sem gestastjórnanda á dögunum og hann er tilbúinn að fara vinna á ný. Þá er erfitt að stoppa sögusagnirnar. Eitt sem mun þó ekki breytast eru leikmennirnir. Nýr stjóri mun ekki breyta hvernig þeir spila.“

„Jú, þegar það kemur nýr þjálfari kemur smá stígandi í leikinn en heilt yfir verður viðhorfið það sama. Enginn ákefð, engin ástríða og enginn stendur saman. Leikmennirnir þurfa að breyta viðhorfi sínu jafn mikið og að það þurfi að skipta um þjálfara.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×