Erlent

Fuglaflensa greinst um alla Evrópu

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Fuglaflensufaraldur virðist nú ríða yfir Evrópu en H5N8-veiran hefur greinst í Hollandi, Englandi, Rússlandi og Þýskalandi.
Fuglaflensufaraldur virðist nú ríða yfir Evrópu en H5N8-veiran hefur greinst í Hollandi, Englandi, Rússlandi og Þýskalandi. Getty/Robert Alexander

Yfirvöld í Hollandi keppast við að halda fuglaflensu sem greinst hefur á tveimur fuglabúum í skefjum. Sama veiran, H5N8, hefur greinst bæði í hænum og villtum fuglum í norðurhluta Þýskalands.

Fuglabúin tvö, sem eru nærri bænum Puiflijk í austurhluta Hollands, munu þurfa að farga 200 þúsund hænum. Bæirnir tveir hafa verið girtir af og hafa bændur verið hvattir til að halda fuglum sínum innandyra.

Eins og áður segir hafa hænsn í Þýskalandi einnig greinst smituð af veirunni og þar að auki hafa hænsn á bæ í Frodsham í norðvestur Englandi greinst með H5N8 og mun búið þurfa að farga 13 þúsund fuglum.

H5N8-veiran er mönnum ekki hættuleg en fjárhagslegar afleiðingar geta verið miklar fyrir bú þar sem veiran greinist. Heilbrigðisyfirvöld hafa þó biðlað til fólks að snerta ekki veika eða dauða fugla. Þá sé öruggt að borða kjúklingakjöt og egg ef þau eru elduð í gegn, en veiran deyr við það.

Veiran hefur einnig greinst í farfuglum frá Rússlandi en farga þurfti fjölda fugla á búum í Kostroma héraði í Rússlandi seint í síðasta mánuði í von um að hafa hemil á veirunni.

Samkvæmt þýsku fréttastofunni NDR hafa meira en þúsund dauðir fuglar fundist við strönd landsins, aðallega endur og gæsir, sem eru taldir hafa dáið úr fuglaflensu.

Ekki er langt síðan að skæður fuglaflensufaraldur reið yfir Þýskaland, en 2016-2017 þurfti að farga meira en níu hundruð þúsund fuglum í landinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×