Innlent

Landspítalinn „enn í skotgröfunum“

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Forstjóri Landspítalans sagði á fundi í velferðarnefnd Alþingis í morgun að nú sé verið að framkvæma um 35% af aðgerðum spítalans.
Forstjóri Landspítalans sagði á fundi í velferðarnefnd Alþingis í morgun að nú sé verið að framkvæma um 35% af aðgerðum spítalans. Vísir/Vilhelm

Von er á niðustöðu úr athugun Landspítalans á hópsmitinu á Landakoti í byrjun næstu viku að sögn Páls Matthíassonar, forstjóra Landspítalans. Hann segir að rætt hafi verið yfir 100 manns um málið og að útlit sé fyrir að skýringin felist í samspili nokkurra þátta.

Þetta kom fram á fundi velferðarnefndar í morgun um neyðarstig á Landspítalanum. Alls eru nú 139 smit tengd hópsmitinu á Landakoti; 67 sjúklingar og 72 starfsmenn.

Páll sagði að tvö ný smit sem líklega tengjast Landakotssmitinu hafi greinst á meðal starfsmanna í gær. Fyrir það höfðu ekki greinst smit tengd hópsýkingunni í þrjá daga. Það hafi vakið nokkra bjartsýni um að mögulega yrði hægt að taka spítalann af neyðarstigi um helgina, en að nú væri staðan mögulega breytt.

Páll fór yfir ástæður þess að spítalinn var færður yfir á neyðarstig og vísaði til þess að fjöldi inniliggjandi sjúklinga hefði verið í veldisveti. „Þetta er yfirlýsing um að spítalinn þurfi hjálp innanhúss- og utan. Að allir þurfi að fara í bátana,“ sagði Páll. 

Hann sagði spítalann ekki enn kominn fyrir vind og enn vera „í skotgröfunum.“ Auk þess sem verið sé að fresta um 65% af aðgerðum spítalans  séu útskriftir sjúklinga  vaxandi vandamál. 

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala.Lögreglan

Í máli Önnu Sigrúnar Baldursdóttur, aðstoðarmanns forstjóra spítalans, kom fram að alls bíða nú 85 sjúklingar sem komnir eru með heilsu- og færnimat eftir útskrift. Þar af séu 38 utan biðdeildar og meðal annars á bráðadeild. Þar væri þörf á betra flæði þar sem deildin „sé ekki góður staður fyrir þá.“

Sem mögulegar orsakir hópsýkingarinnar nefndi Páll húsnæðið og mönnun auk vangaveltna um hvort veiran sé orðin meira smitandi.

Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdóma á Landspítalanum, sem einnig var gestur á fundinum tók undir þetta sjónarmið. Hann benti á að sá stofn veirunnar sem nefndur hefur verið „franski stofninn“ væri að verða allsráðandi hér og annars staðar í Evrópu. „Við höfum ekki erfðafræðilega fullvissu en hann er svo sannarlega að ryðja öðrum stofnum úr vegi,“ sagði Már.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×