Erlent

Krefst rannsóknar vegna margfrægs viðtals við Díönu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Í viðtalinu tjáði Díana sig m.a. um Camillu Parker Bowles, núverandi eiginkonu Karls Bretaprins.
Í viðtalinu tjáði Díana sig m.a. um Camillu Parker Bowles, núverandi eiginkonu Karls Bretaprins. BBC

Charles Spencer, bróðir Díönu prinsessu heitinnar, hefur farið fram á að BBC hefji rannsókn á því hvernig blekkingum var beitt til að fá prinsessuna til að veita fjölmiðlamanninum Martin Bashir viðtal árið 1995. 23 milljónir manna horfðu á hið afar persónulega viðtal, þar sem Díana svaraði m.a. spurningum um líðan sína og ástand hjónbands síns og Karls Bretaprins.

Spencer sakar breska ríkisútvarpið um hvíttþvott vegna málsins en hann heldur því fram að Bashir hafi þvingað Díönu í viðtalið með fölsuðum bankayfirlitum og ósönnum kjaftasögum um meint framhjáhald Karls með barnfóstrunni Tiggy Leggy-Bourke.

Samkvæmt Guardian áttu bankayfirlitin að sýna að leyniþjónustan hefði greitt tveimur háttsettum starfsmönnum bresku hirðarinnar fyrir upplýsingar um Díönu. Tim Davie, framkvæmdastjóri BBC, hafnaði því í síðustu viku að taka ásakanirnar til rannsóknar en baðst afsökunar á notkun hinna fölsuðu gagna.

Spencer segist hins vegar aldrei myndu hafa kynnt systur sína og Bashir ef ekki hefði verið fyrir fölsunina og segir forsvarsmenn BBC ekki átta sig á alvarleika málsins. Hann hefur kallað eftir því að ríkisútvarpið biðji fjölskyldu hans og almenning afsökunar.

Guardian hefur eftir talsmanni BBC að ómögulegt sé að ræða við Bashir vegna veikinda en fram hefur komið að hann er illa haldin af Covid-19. Þá er því neitað að hin fölsuðu gögn hafi haft nokkuð með það að gera að Díana ákvað að veita Bashir viðtal. Að sögn talsmannsins reit prinsessan yfirlýsingu þess efnis en ekki er vitað hvar plaggið er.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×