Enski boltinn

Pochettino segist elska Tottenham

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mauricio Pochettino ber engan kala til Tottenham þrátt fyrir að hafa verið rekinn þaðan í fyrra.
Mauricio Pochettino ber engan kala til Tottenham þrátt fyrir að hafa verið rekinn þaðan í fyrra. getty/Srdjan Stevanovic

Þrátt fyrir að hafa verið látinn fara frá Tottenham fyrir ári síðan er Mauricio Pochettino enn hlýtt til félagsins og vonast til að það vinni titla undir stjórn eftirmanns síns, José Mourinho.

Pochettino var fimm og hálft ár við stjórnvölinn hjá Tottenham og gerði frábæra hluti með liðið. Undir hans stjórn komst Spurs m.a. í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu vorið 2019 þar sem liðið tapaði fyrir Liverpool, 2-0.

Í nóvember 2019 var Pochettino látinn taka pokann sinn hjá Tottenham eftir slakt gengi. Skömmu eftir brottrekstur Argentínumannsins var Mourinho tilkynntur sem eftirmaður hans.

„Ári síðar ætla ég ekki að segja að ég hafi ekki verið vonsvikinn. Ég var svekktur þegar við yfirgáfum félag sem við höfðum tengst vel eftir fimm og hálft ár. Ég lýg því ekki. En ég skil fótbolta og kannski þurfti félagið að gera breytingu. Ég kvarta ekki yfir ákvörðuninni,“ sagði Pochettino í Monday Night Football á Sky Sports í gær.

Pochettino segist kunna vel við Mourinho og vonast til að hann nái góðum árangri með Tottenham.

„Sá sem tók við af mér er góður vinur minn. Ég elska Tottenham, þekki José og vil aðeins það besta fyrir hann og það er að vinna. Við misstum af tækifærinu að vinna titla. Það hefði verið kirsuberið á kökuna,“ sagði Pochettino sem kveðst vera tilbúinn að snúa aftur í þjálfun.

„Ég vonast til að koma aftur sem fyrst og byrja að vinna. Ég hlakka til að snúa aftur. Ég elska þennan leik en þetta er erfitt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×