Enski boltinn

Skaut á Real Madrid eftir sigurmark Bales: „Ætla að kíkja á heimasíðuna þeirra“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
José Mourino setti Gareth Bale inn á sem varamann á 70. mínútu gegn Brighton. Þremur mínútum síðar skoraði hann sigurmark Tottenham.
José Mourino setti Gareth Bale inn á sem varamann á 70. mínútu gegn Brighton. Þremur mínútum síðar skoraði hann sigurmark Tottenham. getty/Tottenham Hotspur FC

José Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham, gat ekki stillt sig um að skjóta á Real Madrid eftir að Gareth Bale skoraði sigurmark Spurs gegn Brighton, 2-1, í ensku úrvalsdeildinni í gær.

Bale sneri aftur til Tottenham í haust á láni frá Real Madrid. Hann kom inn á sem varamaður gegn Brighton og tryggði Tottenham öll stigin þrjú þegar hann skallaði boltann í netið á 73. mínútu. Þetta var fyrsta mark Walesverjans fyrir Spurs í sjö ár.

Þrátt fyrir að hafa unnið Meistaradeild Evrópu í fjórgang með Real Madrid virðist Bale ekki vera í neitt sérstaklega miklum metum þar á bæ og spilaði lítið með Madrídarliðinu á síðasta tímabili.

„Þegar ég hef fimm mínútur ætla ég að fara á Safari og kíkja á heimasíðu Real Madrid og sjá hvað þeir segja,“ sagði Mourinho eftir leikinn í gær. Hann er auðvitað fyrrverandi stjóri Real Madrid en yfirgaf félagið 2013.

Mourinho hrósaði Bale í hástert eftir leikinn gegn Brighton í gær. „Auðvitað er ég ánægður með Bale. Hann á þetta skilið. Hann veit að okkur þykir vænt um hann og við vitum að honum þykir vænt um okkur, liðið og Spurs. Hann passar fullkomlega í liðið. Hann er mjög rólegur, mjög klár.“

Tottenham er í 2. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með fjórtán stig, tveimur stigum á eftir toppliði Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×