Innlent

Smitum fjölgar áfram á Akureyri og Dalvík

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Frá Dalvík.
Frá Dalvík. Vísir/getty

79 manns eru nú í einangrun á Norðurlandi eystra, flestir á Akureyri en smitum hefur fjölgað á Dalvík. Hermann Karlsson aðalvarðstjóri í aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi eystra segir þessa þróun ekki þurfa að koma á óvart.

Smitum hefur fjölgað jafnt og þétt á Norðurlandi eystra undanfarna daga og eru 16 af þeim 75 smitum sem greindust í gær á landinu á Norðurlandi eystra. Alls eru 240 í sóttkví.

„Eftir gærdaginn var þetta þróun sem við reiknuðum alveg með um helgina. Þetta kemur ekki á óvart, því miður,“ segir Hermann.

Í fyrradag greindust tíu smit og fjórtán í gær. Smitin eru flest á Akureyri en veiran virðist einnig hafa dreift sér um á Dalvík, þar voru fjögur smit í fyrradag en fleiri hafa bæst við eftir gærdaginn. Átta af smitunum er á Dalvík, átta á Akureyri.

„Það er dálítil fjölgun á Dalvík, þar hefur hún dreift sér og svo er hinn hlutinn hérna á Akureyri,“ segir Hermann.

Smitin hafa verið rakin úr ýmsum áttun og komið hefur fram að fjölgun í smitum á svæðinu megi að einhverju leyti rekja til samkvæmis og jarðarfarar og tengjast smit gærdagsins meðal annars inn í það.

„Þetta tengist inn í þetta áfram og svo er annað atriði hér sem nær inn á eina sjúkraþjálfun hérna. Það eru komin smit sem ná þangað inn, í eina sjúkraþjálfun.“

Þá hefur verið staðfest að barn í 5. bekk í Brekkuskóla á Akureyri. er með Covid-19. Af þessum sökum, og á meðan smitrakning fer fram, eru allir nemendur árgangsins sem voru í skólanum miðvikudaginn 28. október komnir í sóttkví sem og kennarar 5. bekkjar sem höfðu verið í samskiptum við barnið.

Áframhaldandi aðgerðir vegna kórónuveirunnar verða kynntar í dag en boðað hefur verið að þær verði hertar frá því sem nú er. Fylgjast má með beinni útsendingu frá fundi þar sem aðgerðirnar verða kynntar hér, fundurinn hefst klukkan 13.00.


Tengdar fréttir

Alls greindust 75 innan­lands í gær

Alls greindust 75 með kórónuveiruna innan­lands í gær. Áttatíu prósent þeirra voru í sóttkví. 64 eru nú á sjúkrahúsi vegna Covid-19, þar af fjórir á gjörgæslu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×