Barcelona lagði Juventus | Pirlo í vandræðum?

Dembele fagnaði marki sínu í kvöld vel og innilega.
Dembele fagnaði marki sínu í kvöld vel og innilega. Chris Ricco/Getty Images

Stórveldin Juventus og Barcelona áttust við í G-riðli Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Bæði lið hafa átt í vandræðum undanfarið enda bæði með nýja þjálfara. Andrea Pirlo er við stjórnvölin hjá Juventus og Ronald Koeman hjá Börsungum.

Eftir 2-0 sigur gestanna frá Katalóníu er ljóst að Pirlo er í vandræðum þessa dagana en Juventus hefur ekki verið sannfærandi undanfarið. Þá er liðið enn án Cristiano Ronaldo þar sem hann er með kórónuveiruna.

Börsungar hófu leikinn af krafti og Ousmane Dembélé kom þeim yfir á 14. mínútu eftir sendingu Lionel Messi. Raunar fór boltinn af Federico Chiesa of yfir Wojciech Szczęsny í marki Juventus. Var það eina mark fyrri hálfleiks. 

Raunar skoraði Álvaro Morata tvívegis í fyrri hálfleik en í bæði skiptin voru mörkin dæmd af eftir að hafa verið skoðuð af myndbandsdómurum leiksins. Staðan því 0-1 í hálfleik og aftur hélt Morata að hann hefði jafnað metin á 57. mínútu. 

Enn og aftur var það dæmt af og Morata gráti næst er hann sá dómarann lyfta upp hendinni og dæma markið af.

Undir lok leiks fór svo allt í baklás hjá Juventus. Merih Demiral fékk sitt annað gula spjald á 85. mínútu og í uppbótartíma leiksins fengu gestirnir vítaspyrnu. Lionel Messi fór á punktinn og tryggði Barcelona 2-0 sigur og þar með toppsæti riðilsins.

Mögulega hefur uppsögn forseta Barcelona haft svona góð áhrif á Messi sem átti frábæran leik í kvöld.


Tengdar fréttir

FIFA ekkert heyrt frá Barcelona

Alþjóða knattspyrnusambandið segist ekki hafa heyrt frá Barcelona varðandi þátttöku þeirra í úrvalsdeild Evrópu. Fráfarandi forseti spænska liðsins sagði að félagið væri tilbúið að taka þátt í slíkri deild þegar hún yrði stofnuð.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira