Enski boltinn

Manchester United er draumaklúbbur Ísaks en ekki Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ísak Bergmann Jóhannesson er orðin andlit Norrköping liðsns og er hér að auglýsa keppnistreyju liðsins á Instagram síðu félagsins.
Ísak Bergmann Jóhannesson er orðin andlit Norrköping liðsns og er hér að auglýsa keppnistreyju liðsins á Instagram síðu félagsins. Instagram/@ifknorrkoping

Ísak Bergmann Jóhannesson var tekinn í viðtal hjá sænska blaðinu Expressen eftir síðasta leik Norrköping en á leikinn mætti njósnari frá ensku meisturunum í Liverpool.

Ísak Bergmann Jóhannesson er þegar orðinn lykilmaður í liði Norrköping og í íslenska 21 árs landsliðinu þrátt fyrir að vera enn bara sautján ára gamall.

Sænskir fjölmiðlar hafa fjallað mikið um áhuga stóru liðanna í Evrópu á íslenska miðjumanninum og hafa félög eins og Manchester United, Juventus og Liverpool verið nefnd til sögunnar.

Expressen hefur fjallað mikið um áhugann á Ísaki og sagði meðal annars frá njósnara Liverpool á síðasta leik Norrköping. Blaðamaður Express gekk líka á Ísak eftir leikinn og ræddi stöðu mála.

„Það voru stórir klúbbar mættir hingað til að horfa á þig,“ sagði Anel Avdic, blaðamaður Expressen við Ísak eftir leikinn.

„Já, hverjir,“ spurði Ísak til baka. „Liverpool en líka fleiri,“ svaraði Avdic.

„Það er mjög skemmtilegt en eins og ég hef sagt áður þá er ég bara að einbeita mér að því að tryggja Norrköping sæti í Evrópukeppninni,“ sagði Ísak.

Anel Avdic gafst ekki alveg upp og spurði Ísak út í draumaklúbbinn hans í Evrópu.

„Manchester United. Svo er IFK Norrköping líka draumaklúbburinn minn. Ég bjó í Manchester þegar ég var barn og horfði á marga leiki þar,“ sagði Ísak.

Ísak er fæddur árið 2003 en Jóhannes Karl Guðjónsson faðir hans spilaði sem atvinnumaður með Burnley á árunum 2007 til 2010 og svo með Huddersfield Town frá 2010 til 2012. Bæði Burnley og Huddersfield eru rétt hjá Manchester.

„Svo þú ætlar ekki að fara til Liverpool,“ skaut Anel Avdic á hann.

„Haha, ég segi ekki neitt um það. Þeir spila góðan fótbolta. Manchester City og Liverpool hafa verið frábær,“ sagði Ísak en sér hann fyrir sér að fara frá Norrköping í vetur.

„Þú færð bara leiðinlegt svar en ég er bara að einbeita mér að Norrköping. Það eru fimm leikir eftir og við ætlum að ná Evrópusætinu,“ sagði Ísak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×