Innlent

Hátt í níutíu smit tengjast Landakoti

Margrét Helga Erlingsdóttir og Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifa
Ekki er búið að ná utan um hópsýkinguna á Landakoti.
Ekki er búið að ná utan um hópsýkinguna á Landakoti. Vísir/Vilhelm

Hátt í níutíu manns hafa nú smitast frá því hópsýking á Landakoti hófst. Sóttvarnalæknir segir tíu hafa bæst í hóp smitaðra í gær og að ekki sé búið að ná utan um sýkinguna.

Um helgina var greint frá því á óvæntum blaðamannafundi að búið væri að færa Landspítalann yfir á neyðarstig vegna covid-19, í fyrsta skiptið í faraldrinum. Ástæðan fyrir því væri hópsýking sem uppgötvaðist á Landakoti síðasta fimmtudag. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans hefur sagt að það hafi gerst sem hann hafi óttast mest; sýkingin hafi náð til viðkvæmasta hópsins.

Í gær var greint frá því að 79 hefðu smitast í tengslum við sýkinguna á Landakoti. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir sagði að ekki væri búið að ná utan um hópsýkinguna. Hann var spurður út í stöðuna á Landakoti í dag.

„Þetta verður erfiðara eftir því sem frá líður en okkur sýnist á þeim tölum sem komu í gær að það séu um tíu ný tilfelli sem tengjast Landakoti. Það eru heldur færri en undanfarna daga en við búumst við því að tölur fari lækkandi.“

Kjartan Hreinn Njálsson, aðstoðarmaður landlæknis, sagði í viðtali við mbl.is að það ætti eftir að koma í ljós hvort sýkingin yrði tilkynnt sem alvarlegt atvik en ekki væri tímabært að hugsa um slíkt sem stæði.

Már Kristjánsson, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítala segir í samtali við Morgunblaðið að hann sé ósáttur að heyra að svo gæti orðið. Tilkynning um alvarlegt atvik myndi ganga þvert gegn því sem sagt hafi verið hingað til um samstöðu í baráttunni við faraldurinn.

Telur málið á misskilningi byggt

Þórólfur var spurður í hvaða farveg hann teldi farsælast að málið færi í. Hann sagðist telja málið vera byggt á misskilningi.

„Mér sýnist þetta geta byggst á því að ég heyrði forstjóra Landspítalans segja í gær að athugun þeirra myndi hugsanlega geta leitt til tilkynningar annað hvort til sóttvarnalæknis eða landlæknis, eins og hann orðaði það og ég veit ekki betur en að aðstoðarmaður Landlæknis hafi svarað því á þann hátt að það yrði bara tekið til athugunar og síðan held ég að menn hafi kannski tekið því þannig að Landlæknir sjálfur hafi ætlað að kanna þetta mál. Ég held þetta sé misskilningur um að menn hafi bara ekki vitað hver var búinn að segja hvað,“ sagði Þórólfur.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.