Enski boltinn

Pogba brjálaður og ætlar í mál

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Pogba liggur í grasinu í leik Man Utd og Chelsea um síðustu helgi. Pogba hóf leikinn á varamannabekknum er liðin gerðu markalaust jafntefli.
Pogba liggur í grasinu í leik Man Utd og Chelsea um síðustu helgi. Pogba hóf leikinn á varamannabekknum er liðin gerðu markalaust jafntefli. EPA-EFE/Phil Noble

Paul Pogba, miðvallarleikmaður Manchester United í ensku úrvalsdeildinni sem og franska landsliðsins, er vægast sagt ósáttur með frétt enska götublaðsins The Sun sem birtist í morgunsárið.

Í frétt The Sun segir að Pogba sé hættur að leika með franska landsliðinu vegna ummæla Emmanuel Macron, forseta Frakklands, varðandi múslima í landinu. Macron ku hafa sagt að eftirlit yrði hert með íslömskum öfgahreyfingum í Frakklandi í kjölfarið á því að kennari þar í landi var myrtur á hrottalegan hátt.

Pogba kveðst ætla í mál við The Sun.

Í frétt Sky Sports um málið segir að The Sun hafi beðist afsökunar og breytt frétt sinni.

„Ég er reiður, í sjokki og pirraður að heimildir „fjölmiðla“ noti mig til að búa til falsfréttir um viðkvæm málefni í Frakklandi og blandi franska landsliðinu í málið. Ég er á móti ofbeldi og voðaverkum í öllum þeim myndum sem þau koma. Því miður virðast ekki allir blaðmenn hafa áhuga á að staðfesta þær sögur sem þeir heyra og búa þar af leiðandi til slúður sem hefur áhrif á líf fólks sem og mitt eigið líf,“ sagði hinn 27 ára gamli Pogba um málið.

Reikna má með að Pogba verði í eldlínunni með liði sínu Manchester United annað kvöld er RB Leipzig heimsækir Old Trafford í Meistaradeild Evrópu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×