Fótbolti

Börsungar kvarta yfir dómaranum í El Clásico sem á að hafa fengið Real Madrid-uppeldi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Juan Martínez Munuera bendir á vítapunktinn eftir að hafa ráðfært sig við myndbandsdómara.
Juan Martínez Munuera bendir á vítapunktinn eftir að hafa ráðfært sig við myndbandsdómara. getty/Alex Caparros

Börsungar eru afar ósáttir við vítaspyrnuna sem Real Madrid fékk í El Clásico á Nývangi á laugardaginn. Uppi eru getgátur um að dómari leiksins, Juan Martínez Munuera, hafi verið hliðhollur Real Madrid sem vann leikinn, 1-3.

Sergio Ramos kom Real Madrid í 1-2 eftir rúmlega klukkutíma leik með marki úr vítaspyrnu sem dæmd var á Clement Lenglet fyrir að brjóta á Ramos sjálfum. Martínez Munuera sá ekki brotið en dæmdi víti eftir að hafa ráðfært sig við myndbandsdómara.

Í spænska blaðinu SPORT, sem er hliðhollt Barcelona, er greint frá því að faðir Martínez Munuera, Juan Ramon, sé stuðningsmaður Real Madrid. Ekki nóg með það heldur hafi hann stofnað stuðningsmannafélag Real Madrid á Benidorm.

Martínez Munuera hefur verið dómari í ellefu ár. Meðfram dómgæslunni starfar hann sem laganna vörður á Alicante. Bróðir hans, Miguel Martínez, var aðstoðardómari í El Clásico um helgina.

Barcelona hefur sent inn kvörtun til spænska knattspyrnusambandsins vegna frammistöðu dómranna í El Clásico. Auk þess að fá á sig umdeilda vítaspyrnu vildu Börsungar sjálfir fá tvö víti í leiknum.

Eftir leikinn kvartaði Ronald Koeman, knattspyrnustjóri Barcelona, sáran og sagði að myndbandsdómgæsla væri bara notuð til að dæma gegn Börsungum. 

„Það er alltaf svona peysutog í gangi í teignum og mér fannst Ramos brjóta fyrst á Lenglet. Það var vissulega peysutog en ekki svo mikið að hann þyrfti að falla í jörðina eins og hann gerði. Að mínu mati þá var þetta ekki vítaspyrna,“ sagði Koeman. „Við erum búnir að spila fimm leiki og VAR hefur bara verið notað gegn okkur. Það hefur aldrei neitt fallið með okkur.“

Eftir fimm leiki er Barcelona í 12. sæti spænsku úrvalsdeildarinnar með sjö stig. Real Madrid er í 2. sæti með þrettán stig eftir sex leiki.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.