Fótbolti

Bítast um íslensku ungstirnin

Sindri Sverrisson skrifar
Mörg félög hafa borið víurnar í Sveindísi Jane Jónsdóttur, sérstaklega eftir landsleikinn gegn Svíþjóð fyrir mánuði síðan.
Mörg félög hafa borið víurnar í Sveindísi Jane Jónsdóttur, sérstaklega eftir landsleikinn gegn Svíþjóð fyrir mánuði síðan. Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Sveindís Jane Jónsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir vöktu mikla athygli með frammistöðu sinni í landsleikjunum við Lettland og Svíþjóð í síðasta mánuði.

Ísland og Svíþjóð mætast að nýju síðdegis á morgun, í Gautaborg, í toppslag í undankeppni EM, og hafa verið við æfingar í borginni undanfarna daga.

Sveindís og Karólína voru í byrjunarliðinu í báðum landsleikjunum í september og þessar 19 ára gömlu landsliðskonur þurfa eftir framgöngu sína lítið annað að gera en að kinka kolli og segja já til að komast í atvinnumennsku.

Þær sýndu sérstaklega hve vel þær geta spjarað sig á stærra sviði en í Pepsi Max-deildinni, þar sem þær eiga Íslandsmeistaratitil vísan með Breiðabliki, með leik sínum í 1-1 jafnteflinu við HM-bronslið Svía. Sveindís lagði til að mynda upp jöfnunarmark Íslands með löngu innkasti.

Mesti áhuginn á Sveindísi og Hlín

„Það var áhugi til staðar fyrir 1-1 jafnteflið við Svíþjóð en eftir leik varð áhuginn mikill. Það er hópur sænskra félaga sem hefur sett sig í samband og vill fá Sveindísi og Karólínu,“ segir Gylfi Sigurðsson, umboðsmaður, við Fotbollskanalen.

Klippa: Jafntefli gegn stórliði Svía

Gylfi, sem er búsettur í Svíþjóð, starfar hjá Total Football umboðsskrifstofunni sem starfar meðal annars fyrir Sveindísi, Karólínu og Valskonuna Hlín Eiríksdóttur. Hlín, sem er ári eldri en hinar tvær, hefur þegar leikið 16 A-landsleiki og skorað þrjú mörk. Hún kom inn á sem varamaður í leikjunum í september.

„Í seinni hálfleiknum [gegn Svíþjóð] kom Hlín Eiríksdóttir inn á fyrir Karólínu og ég get sagt að mesti áhuginn er á Hlín og Sveindísi,“ segir Gylfi við Fotbollskanalen.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir lék frábærlega gegn Svíþjóð og Lettlandi í síðasta mánuði.Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Aðspurður hvort að félög úr enn sterkari deildum en þeirri sænsku hafi sýnt íslensku ungstirnunum áhuga svarar Gylfi: „Nei, það hafa bara komið lauslegar fyrirspurnir um hvort að samningar þeirra séu að renna út. Aðaláhuginn er frá félögum í Svíþjóð og Noregi.“

Gylfi segir leikmennina ákveðna í að einbeita sér að leiknum mikilvæga við Svíþjóð og eftir það verði að koma í ljós hvað framtíðin beri í skauti sér hjá landsliðskonunum ungu.


Tengdar fréttir

Höfum búið til góðan markamun gegn Íslandi

Svíþjóð stendur betur að vígi en Ísland í baráttunni um efsta sæti F-riðils í undankeppni EM kvenna í fótbolta, nú þegar fjórir dagar eru í að liðin mætist í Gautaborg.

Földu löngu innköstin hennar Sveindísar gegn Lettum

Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir segir að það hafi verið klókt hjá landsliðsþjálfaranum Jóni Þór Haukssyni að fela löngu innköstin hennar Sveindísar Jane Jónsdóttur gegn Lettum til að koma Svíum á óvart.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.