Innlent

Brosir hringinn eftir skilaboð frá þeim sem hann dýrkar og dáir mest

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sigríður Elín ásamt börnum sínum, Ólíver til vinstri og dóttur sinni í miðju.
Sigríður Elín ásamt börnum sínum, Ólíver til vinstri og dóttur sinni í miðju. Facebook

Landsliðsfólk í knattspyrnu og handbolta, tónlistarfólk, leikarar og menntamálaráðherra eru á meðal þeirra sem sent hafa dreng á ellefta ári skilaboð eftir að móðir hans greindi frá einelti í hans garð í Garðabæ.

Móðir drengsins greindi frá eineltinu í fyrrakvöld og vakti frásögn hennar miklar athygli. Hún rakti hvert dæmið á fætur öðru þar sem sonur hennar fékk að heyra það frá bekkjarfélögum. Hún hafi viljað fara með málið lengra, sem sonur hennar barðist gegn í fyrstu.

Mamma þetta mun samt aldrei lagast

Svo slæmt var ástandið orðið að sonur hennar hafði orð á því að hann vildi deyja. Hún sagði skólakerfið eiga erfitt með að taka á eineltismálum.

„Mamma þetta mun samt aldrei lagast, þeir geta ekki hætt að hata mig,” sagði Sigríður Elín Ásmundsdóttir eftir syni sínum.

Í framhaldinu tók Sigríður Elín son sinn úr Sjálandsskóla og hann æfir í dag íþróttir með öðru félagi, þar sem honum líði vel.

Nú tveimur sólarhringum síðar segist hún vera klökk og orðlaus yfir viðbrögðunum. Sömuleiðis Ólíver sonur hennar. Greint var frá hjartræmri kveðju landsliðsmannsins í knattspyrnu, Jóns Daða Böðvarssonar, í gær og fleiri hafa fylgt í kjölfarið.

„Okkur sýnist þjóðin vera sammála okkur um að einelti má aldrei líðast og við eigum að hjálpast að, öll sem eitt, við að uppræta það. Við EIGUM að skipta okkur af þegar við verðum vitni að einelti, sýna stuðning, ást og umhyggju því einelti er dauðans alvara,“ segir Sigríður Elín.

Ólíver brosi hringinn eftir að hafa fengið símtöl og skilaboð frá þeim sem hann dýrkar og dáir mest í lífinu.

Landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson hefur sett sig í samband við Ólíver.Vísir/vilhelm

„Þið eruð einstakir menn með hjartað á réttum stað: Takk Ingó Veðurguð fyrir að hringja og stappa í hann stálinu. Takk Jón Daði og íslenska landsliðið í fótbolta fyrir hjartnæm skilaboð til Ólívers, hann fékk kusk í augað og trúði varla sínum eigin augum. Takk Aron Einar, Ólíver missti andlitið þegar fyrirliði íslenska landsliðsins sendi honum skilaboð og sagðist vilja heyra í honum. Takk Björgvin Páll Gústavsson fyrir einlægt og uppbyggjandi spjall við Ólíver, hann er mjög spenntur að hitta þig á vellinum og spila við þig, hann ætlar sko ekki að tapa fyrir þér!“

Björgvin Páll hefur boðið Ólíver út á völl í leik.Vísir/Vilhelm

Og þakkirnar halda áfram.

„Takk Aron Pálmarsson fyrir peppið og spjallið og ÁFRAM FH! Takk Ævar vísindamaður, ævintýragjarna guttanum mínum finnst þetta frábær hugmynd hjá þér.

Takk ALLIR! Það er magnað að upplifa þetta góða, fallega í lífinu eftir langavarandi niðurbrot.“

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra lofar átaki í eineltismálum í samtali við Sigríði.vísir/vilhelm

Þá hafi Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hringt í hana og sagst ætla að taka fastar á eineltismálum í skólakerfinu og finna betri lausnir sem virka fyrir börnin og unglingana okkar.


Tengdar fréttir

„Mér líður svo illa í skólanum að mig langar að deyja“

Móðir barns sem nýverið hætti í Sjálandsskóla í Garðabæ lýsir grimmu einelti í garð sonar síns í bæjarfélaginu, bæði í skólanum og á íþróttaæfingum hjá Stjörnunni. Svo slæmt var ástandið orðið að sonur hennar hafði orð á því að hann vildi deyja. Hún segir skólakerfið eiga erfitt með að taka á eineltismálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×