Innlent

Sýknaður af nauðgun á sam­býlis­konu sinni

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Landsréttur sýknaði í dag mann sem var sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að hafa nauðgað þáverandi sambýliskonu sinni.
Landsréttur sýknaði í dag mann sem var sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir að hafa nauðgað þáverandi sambýliskonu sinni. Vísir/Vilhelm

Landsréttur sýknaði í dag mann sem var sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur í mars 2019 fyrir að hafa nauðgað þáverandi sambýliskonu sinni með því að beita hana ofbeldi og ólögmætri nauðung. Framburður sonar konunnar sem vísað var til í dómi héraðsdóms var ekki talinn styðja framburð móður hans.

Fram kemur í dómi Landsréttar að niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu hafi byggst á framburði konunnar sem metinn var trúverðugur, auk þess sem vísað var til þess að framburður sonar hennar styddi framburð hennar, og skýrslur vitna sem konan hafði verið í samband við á umræddum tíma.

Landsréttur telur að óljóst sé hvort þau orðaskipti sem sonur konunnar bar um að hafa heyrt hefðu varðað málsatvik sem ákæran náði til eða önnur átök milli þáverandi sambýlisfólksins. Þótti óvarlegt að leggja til grundvallar að framburður hans styddi framburð móður hans.

Þá væru framburðir vitnanna tveggja byggðir eingöngu á endursögn konunnar á atvikum auk þess sem vitnin mundu illa eftir atvikum við skýrslugjöf fyrir héraðsdómi. Þá hafi ekki verið ljós hvort framburður þeirra ætti við um nauðgunina sem sambýlismaðurinn var ákærður fyrir eða nauðganir sem konan kærði hann fyrir en leiddu ekki til ákæru.

Maðurinn var í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmdur í tveggja og hálfs árs langt fangelsi fyrir nauðgunina. Hann var ákærður fyrir að hafa farið upp í rúm til konunnar að nóttu til í ágúst 2015 þar sem hann beitti hana ofbeldi og ólögmætri nauðung.

Þegar konan gaf fyrst skýrslu hjá lögreglu lýsti hún því að maðurinn hafi ruðst inn í herergi hennar, rifið fötin utan af henni og þvingað hana til kynferðismaka. Þá sagði hún son sinn hafa verið heima og hann hefði orðið var við það sem gekk á. Hún sagði jafnframt að maðurinn hafi nauðgað henni þrisvar sumarið 2015.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×