Fótbolti

Líkti Ansu Fati við svartan götusölumann á flótta undan lögreglunni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ansu Fati fagnar marki sínu fyrir Barcelona gegn Ferencváros á þriðjudaginn.
Ansu Fati fagnar marki sínu fyrir Barcelona gegn Ferencváros á þriðjudaginn. getty/Alex Caparros

Spænski blaðamaðurinn Salvatore Sostres hefur beðist afsökunar á að hafa líkt Ansu Fati, leikmanni Barcelona, við svartan götusölumann.

Fati skoraði eitt mark og lagði upp annað í 5-1 sigri Barcelona á Ferencváros í Meistaradeild Evrópu í fyrradag. Í umfjöllun sinni um leikinn í dagblaðinu ABC reyndi Sostres að lýsa því hversu fljótur Fati er.

„Þegar hann er á fullri ferð minnir hann á gasellu eða er eins og mjög ungur, svartur götusölumaður á flótta undan lögreglunni,“ skrifaði Sostres.

Hann hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir þessa lýsingu, m.a. af Antoine Griezmann, samherja Fatis hjá Barcelona. „Ansu er frábær strákur sem á skilið virðingu eins og allar manneskjur. Segjum nei við rasisma og dónaskap,“ skrifaði Griezmann á Twitter.

Í dag birtist afsökunarbeiðni frá Sostres á heimasíðu ABC. Það er þó erfitt að lesa mikla iðrun úr orðum hans. 

„Þegar ég reyndi að lýsa fegurðinni í hreyfingum Fati og hæfileikum hans sem leikmanns voru sum ummæli túlkuð sem kynþáttafordómar. Það var ekki ætlun mín eða skoðun því ég hef mikið álit á honum eins og hefur sést í mínum skrifum um hann. Ég harma þennan misskilning og bið alla þá sem móðguðust afsökunar,“ sagði Sostres.

Hinn sautján ára Fati hefur byrjað tímabilið af gríðarlega miklum krafti, bæði með Barcelona og spænska landsliðinu. Hann var m.a. valinn leikmaður september-mánaðar í spænsku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×