Íslenski boltinn

Miðað við 300 þúsund manna þjóð er ótrúlegt hve góður fótboltinn á Íslandi er

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Erin McLeod í leik með Stjörnunni gegn ÍBV í lok ágúst. Garðbæingar unnu leikinn, 1-0.
Erin McLeod í leik með Stjörnunni gegn ÍBV í lok ágúst. Garðbæingar unnu leikinn, 1-0. vísir/hulda margrét

Erin McLeod, markvörður Stjörnunnar í Pepsi Max-deild kvenna í fótbolta, ræðir um dvöl sína á Íslandi í viðtali við heimasíðu FIFA, Alþjóða knattspyrnusambandsins.

McLeod kom til Stjörnunnar á láni frá Orlando Pride í Bandaríkjunum um miðjan ágúst. Sú kanadíska hefur leikið átta leiki með Garðbæingum í Pepsi Max-deildinni.

Í viðtalinu segir McLeod að hún hafi þurft að spila eftir að hafa glímt við meiðsli í um ár og Ísland hafi komið inn í myndina vegna kærustu sinnar, Gunnhildar Yrsu Jónsdóttur.

„Við heimsóttum Ísland í desember - ég mæli með því að fólk heimsæki landið að sumri til - og þá áttum við viðræður við Stjörnuna, uppeldisfélag Gunnhildar. Svo þegar ég skoðaði þetta, að ég átti möguleika á að koma hingað, það voru fá kórónuveirutilfelli á Íslandi og fékk tækifæri til að kynnast fjölskyldu kærustu minnar, var þetta ekki spurning. Og þetta hefur verið dásamlegt,“ sagði McLeod.

McLeod hefur farið á fjögur heimsmeistaramót og tvenna Ólympíuleika með kanadíska landsliðinu.vísir/hulda margrét

Hin 37 ára McLeod, sem hefur leikið 118 leiki fyrir kanadíska landsliðið og farið með því á fjölmörg stórmót, talar afar vel um Ísland í viðtalinu, hversu góður fótboltinn hér á landi er og hrósar umhverfinu í kringum hann.

„Miðað við 300 þúsund manna þjóð er ótrúlegt hversu góður fótboltinn er. Að mörgu leyti er Ísland stórkostlegt. Ég ber mikla virðingu fyrir því hvernig þetta land lítur, ekki einungis á kvennaíþróttir, heldur kynjamál almennt. Fyrir nokkrum árum var feðrum gert að fara í fæðingarorlof og launamunur kynjanna er einn sá minnsti í heiminum. Það sama er með árangurstengdar greiðslur [íslensku landsliðanna], konur fá það sama og karlar. Það er margt sem önnur lönd, m.a. Kanada, geta lært af Íslandi,“ sagði McLeod.

„Ég held að heildarmyndin sé það sem heilli erlenda leikmenn sem koma hingað að spila. Allir tala frábæra ensku, og margir leiðrétta málfræðina mína, og þér líður eins og þú sért heima hjá þér. Þú getur klárað æfingu, keyrt svo í 30-40 mínútur og skoðað stórkostlega náttúru. Ég hef fundið að því meiri áherslu sem ég legg á að ná jafnvægi í vinnu og starfi því betur spila ég.“

Allt viðtalið við Erin McLeod má lesa með því að smella hér.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.