Fótbolti

Pelé gefur út sitt fyrsta lag í tilefni af 80 ára afmælinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Pelé grípur í gítarinn á HM 1970.
Pelé grípur í gítarinn á HM 1970. getty/Pictorial Parade

Brasilíska fótboltagoðsögnin Pelé hefur gefið út lag í samstarfi við mexíkóska dúettinn Rodrigo y Gabriela.

„Ég hef skrifað margar bækur, skorað mörg mörk, eignast börn, gróðursett mörg tré. Eina sem vantaði var að gefa út lag,“ sagði Pelé um þetta nýjasta útspil sitt. 

Hann verður áttræður á föstudaginn og fagnar tímamótunum með laginu sem nefnist „Acredita No Veio“, eða „Hlustaðu á gamla manninn“. Pelé samdi það með brasilíska tónlistarmanninum Ruria Duprat árið 2005.

„Ég samdi þetta lag því þegar ég spilaði með Santos sagði þjálfarinn að þegar við töpuðum væri það leikmönnunum að kenna en þegar við unnum hefði macumba (galdurinn) hjálpað til. Lagið hendir gaman að því. Galdurinn vinnur ekkert leiki,“ sagði Pelé.

Hann segist lengi hafa leikið sér í tónlist þótt hann hafi ekki farið hátt með það. 

„Ég vildi ekki að almenningur myndi bera saman tónlistarmanninn Pelé og fótboltamanninn Pelé. Það hefðu verið stór mistök. Fótboltahæfileikar mínir voru guðsgjöf en tónlistin var bara til skemmtunar,“ sagði Pelé.

Hlusta má á lagið hans hér fyrir neðan.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.