Fótbolti

Knattspyrnustjóri Barcelona gagnrýndi frammistöðu Messi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi og félagar í  Barcelona hafa ekki verið sannfærandi í síðustu leikjum.
Lionel Messi og félagar í  Barcelona hafa ekki verið sannfærandi í síðustu leikjum. Getty/David S. Bustamante

Ronald Koeman kom inn með látum þegar hann tók við liði Barcelona í sumar en byrjunin inn á vellinum hefur ekki verið alltof sannfærandi. Í kvöld er komið að fyrsta Meistaradeildarleiknum undir hans stjórn.

Það gekk mikið á hjá Barcelona í haust. Lionel Messi sættist á endanum að klára síðasta árið í samningi sínum en Argentínumaðurinn hafði áður tilkynnt það að hann væri á förum.

Ronald Koeman losaði sig aftur á móti við Luis Suarez, góðan vin Lionel Messi, sem var ekki til að létta lundina hjá argentínska snillingnum.

Barcelona er bara í níunda sæti spænsku deildarinnar með sjö stig eftir fjóra leiki. Liðið tapaði 1-0 á móti Getafe um helgina.

Ronald Koeman gagnrýndi frammistöðu Lionel Messi á blaðamannafundi fyrir Meistaradeildarleikinn á móti Ferencvaros sem fer fram í Barcelona í kvöld.

„Ég hef yfir engu að kvarta eða neinar efasemdir um það að hann sé ekki að leggja sig fram,“ sagði Ronald Koeman á blaðamannafundinum en bætti svo við:

„Eins og er þá mætti hann vera að spila betur. Hann er samt ánægður, hann vill spila og hann vill vera fyrirliði liðsins,“ sagði Koeman.

Lionel Messi er með eitt mark og tvær stoðsendingar í fjórum fyrstu deildarleikjum tímabilsins en hefur ekki komið að marki í síðustu tveimur leikjum. Barcelona hefur líka aðeins skorað eitt mark og náð í eitt stig út úr þeim.

Philippe Coutinho skoraði markið á 10. mínútu í 1-1 jafntefli á móti Sevilla og hafa því Börsungar síðan ekki skorað mark í 170 mínútur. Messi sjálfur hefur nú spilað í 325 mínútur án þess að skora og eina markið hans á leiktíðinni kom úr vítaspyrnu í 4-0 sigri á Villarreal í fyrstu umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×