Erlent

Borgar­stjóri Kaup­manna­hafnar segir af sér í kjöl­far á­sakana

Atli Ísleifsson skrifar
Frank Jensen hefur gegnt embætti borgarstjóra Kaupmannahafnar frá árinu 2010.
Frank Jensen hefur gegnt embætti borgarstjóra Kaupmannahafnar frá árinu 2010. Getty

Frank Jensen, yfirborgarstjóri Kaupmannahafnar, hefur sagt af sér embætti og sem varaformaður Jafnaðarmannaflokksins. Jensen greindi frá þessu á blaðamannafundi sem hófst klukkan 10.

Fjöldi kvenna hefur að undanförnu sakað borgarstjórann Frank Jensen um kynferðislega áreitni. Var greint frá ásökununum í Jyllands-Posten á föstudaginn.

Danskir fjölmiðlar greindu frá því í gærkvöldi að Jensen nyti stuðnings þeirra flokka sem saman stýra Kaupmannahöfn. Var það tilkynnt eftir fjögurra tíma langan neyðarfund. Sagði Jensen þá að hann hugðist taka þátt í því að „breyta menningunni“.

Jensen greindi hins vegar frá því á blaðamannafundinum í morgun að hann hafi, eftir að hafa íhugað málið í gærkvöldi og í nótt, nú ákveðið að segja af sér embætti.

Jensen, sem er meðlimur í Jafnaðarmannaflokknum, hefur gegnt embætti yfirborgarstjóra Kaupmannahafnar frá árinu 2010. Hann gegndi embætti dómsmálaráðherra á árunum 1996 til 2001. Hann er annar tveggja varaformanna Jafnaðarmannaflokksins.

Mette Frederiksen, forsætisráðherra og formaður Jafnaðarmannaflokksins, tjáði sig um málið í morgun. Sagðist hún taka ásakanirnar alvarlega og að ljóst væri að einnig væru vandamál innan Jafnaðarmannaflokksins þegar kemur að málum sem þessu. „Það skal nú breytast,“ sagði Frederiksen og sagði áreitni og brot eigi aldrei að líðast. „Við ætlum í sameiningu að skapa menningu þar sem þetta er ekki í lagi. Hvorki í orði né á borði.“


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.