Enski boltinn

Rooney gæti tekið við Derby áður en langt um líður

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Wayne Rooney hefur leikið með Derby County frá því í byrjun þessa árs.
Wayne Rooney hefur leikið með Derby County frá því í byrjun þessa árs. getty/Adam Davy

Wayne Rooney, markahæsti leikmaður í sögu Manchester United og enska landsliðsins, gæti tekið við enska B-deildarliðinu Derby County innan tíðar.

Phillip Cocu er knattspyrnustjóri Derby en óvíst er að hann verði það mikið lengur. Derby hefur aðeins unnið einn af fyrstu fjórum leikjum sínum í ensku B-deildinni og talið er líklegt að honum verði sagt upp ef Derby mistekst að vinna Watford á morgun.

Eigandi Derby, Mel Morris, hefur mikla trú á Rooney og ku vera tilbúinn að gera hann að stjóra liðsins.

Rooney gekk í raðir Derby frá DC United í fyrra og hefur verið spilandi þjálfari hjá liðinu. Hann gæti fengið stöðuhækkun áður en langt um líður þótt hann eigi enn eftir að klára allar þjálfaragráðurnar. Ljóst er að Rooney þyrfti því að hafa reynslumikla menn í þjálfateymi sínu.

Rooney, sem verður 35 ára í næstu viku, hefur leikið 29 leiki fyrir Derby og skorað sjö mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×