Erlent

Tuttugu manns handteknir í mótmælunum í Bangkok

Telma Tómasson skrifar
Óeirðalögreglan var kölluð út vegna mótmælanna.
Óeirðalögreglan var kölluð út vegna mótmælanna. Getty/Lauren DeCicca

Lögreglan í Tælandi handtók um tuttugu manns sem tóku þátt í fjölmennum mótmælaaðgerðum í Bangkok, höfuðborg landsins, í gærkvöldi.

Nöfn hafa ekki verið gefin upp, en samkvæmt frétt breska ríkismiðilsins BBC eru nokkrir af helstu talsmönnum mótmælenda meðal hinna handteknu, þar á meðal Anon Nampa mannréttindalögmaður og þekktur aðgerðarsinni innan stúdentahreyfingarinnar, Parit Chiwarak.

Heimildir fréttamiðilsins eru studdar af myndbandsupptökum sem streymt var á netinu af atburðum á vettvangi.

Neyðarástandi vegna mótmælanna í Bangkok var lýst yfir í gærkvöldi, en þar með eru yfirvöldum veittar heimildir til að stöðva hvers kyns mótmæli og stærri samkomur, sem og að beita valdi ef svo ber undir. Þá eru hömlur settar á umfjöllun fjölmiðla af gangi mála.

Lýðræðishreyfing sem leidd er af stúdentum hefur krafist afsagnar forsætisráðherra landsins og að dregið verði úr völdum Maha Vajiralongkorn konungs.

Mótmæli hafa staðið yfir nokkuð linnulaust frá því í júlí en upphaf þeirra má rekja til þess að dómstóll skipaði fyrir um að stjórnarandstöðuflokkur skyldi leystur upp í febrúar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.