Erlent

Koma á útgöngubanni í Frakklandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Macron kynnti útgöngubannið í sjónvarpsávarpi í dag. Það tekur gildi á laugardag og varir í að minnsta kosti tvær vikur.
Macron kynnti útgöngubannið í sjónvarpsávarpi í dag. Það tekur gildi á laugardag og varir í að minnsta kosti tvær vikur. Vísir/EPA

Útgöngubann til að hefta hraða útbreiðslu kórónuveirunnar tekur gildi í París og átta öðrum borgum í Frakklandi á laugardag. Emmanuel Macron, forseti, segir bannið verða í gildi í að minnsta kosti fjórar vikur. Neyðarástandi hefur verið lýst yfir vegna uppgangs veirunnar.

Íbúum í París, Marseille, Lyon, Lille, Aix-en-Provence, Rouen, Toulouse, Grenoble og Montpellier verður bannað að yfirgefa heimili sín á milli klukkan 21:00 og 6:00 að staðartíma samkvæmt aðgerðum sem Macron kynnti í dag.

Tæplega 23.000 manns greindust smitaðir af kórónuveirunni í Frakklandi í dag. Í sjónvarpsávarpi sagði Macron þessa bylgju faraldursins annars en þá sem gekk yfir í vor. Veiran hefði nú dreift sér um allt landið.

Varaði forsetinn við því að útgöngubannið gæti varað í allt að sex vikur, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Markmiðið væri að koma í veg fyrir að fólk stundaði veitingastaði og færi í heimsóknir á önnur heimili.

„Við verðum að grípa til aðgerða. Við verðum að hamla útbreiðslu veirunnar,“ sagði Macron sem lýsti um leið skilningi á að erfitt væri að biðja fólk um að virða útgöngubann.

Skólar verða áfram opnir og fólk má ferðast á milli svæða að degi til. Íbúar þurfa gilda ástæðu til að vera utan heimilis síns á meðan útgöngubannið er í gildi.

Faraldurinn er nú í vexti víða í Evrópu og hafa fleiri ríki ákveðið að grípa til frekari takmarkana. Í Hollandi tekur vægara útgöngubann gildi í dag auk þess sem kaffihúsum og veitingastöðum hefur erið gert að loka. Í Katalóníu á Spáni verður börum og veitingastöðum lokað í fimmtán daga frá og með morgundeginum.


Tengdar fréttir

Hert á takmörkunum víða um Evrópu

Tékkar ætla að loka stórum hluta samfélagsins næstu þrjár vikurnar til að reyna að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar. Fleiri þjóðir boða hertar reglur. 

Metfjöldi nýsmitaðra og látinna í Rússlandi

Alls greindust 13.868 smitaðir af Covid-19 í Rússlandi í gær og hafa þeir aldrei verið fleiri á einum degi. Þá dóu 244 og hafa þeir sömuleiðis aldrei verið fleiri frá því heimsfaraldur nýju kórónuveirunnar hófst



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×