Fótbolti

6 dagar í Meistaradeildina: Ronaldo og Messi mætast í fyrsta sinn fyrir jól

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo hjálpar Lionel Messi á fætur þegar þeir mættust með Real Madrid og Barcelona í desember 2017.
Cristiano Ronaldo hjálpar Lionel Messi á fætur þegar þeir mættust með Real Madrid og Barcelona í desember 2017. Getty/Victor Carretero

Meistaradeildin í knattspyrnu fer af stað á nýjan leik á þriðjudaginn í næstu viku þegar riðlakeppnin hefst með átta leikjum í riðlum E til H. Vísir ætlar að telja niður í Meistaradeildina og í dag skoðum við þá skemmtilegu staðreynd að þeir Lionel Messi og Cristiano Ronaldo mætast óvenju snemma í Meistaradeildinni í ár.

Lionel Messi og Cristiano Ronaldo hafa keppt um flesta titla og viðurkenningar í fótboltanum undanfarin tólf ár en á næstunni upplifa þeir þó það sem þeir hafa aldrei gert áður. Lionel Messi og Cristiano Ronaldo munu nefnilega mætast í Meistaradeildinni í fyrsta sinn fyrir áramót því lið þeirra lentu saman í riðli að þessu sinni.

Lionel Messi og Cristiano Ronaldo spiluðu lengst með spænsku félögunum Barcelona og Real Madrid en lið frá sama landi geta ekki lent saman í riðli. Messi er enn hjá Barcelona en Cristiano Ronaldo er kominn til ítalska félagsins Juventus.

Barcelona og Juventus eru í saman í G-riðli með liðum Dynamo Kiev frá Úkraínu og Ferencváros frá Ungverjalandi. Fyrri innbyrðis leikur liðanna verður á heimavelli Juventus 28. októtber en sá síðari á heimavelli Barcelona 8. desember en það er jafnframt lokaleikur liðanna í riðlakeppninni.

Lionel Messi og Cristiano Ronaldo hafa alls mæst 35 sinnum með félagsliðum og landsliðum. Liðin hans Messi hafa unnið sex fleiri leiki eða sextán á móti tíu og Leo Messi hefur líka skorað fleiri mörk í þessum leikjum eða 22 á móti 19 hjá Cristiano Ronaldo.

Þetta verða aftur á móti fyrstu Evrópuleikir liða þeirra síðan Barcelona sló út Real Madrid í undanúrslitum Meistaradeildarinnar tímabilið 2010-11. Þeir höfðu áður mæst þrisvar sinnum þegar Cristiano Ronaldo var leikmaður Manchester United, fyrst í undanúrslitunum 2007-08 og svo í úrslitaleiknum 2009 þar sem Leo Messi skoraði annað markið í 2-0 sigri Barca á Manchester United á Wembley.

Cristiano Ronaldo á enn eftir að skora í Meistaradeildinni í leik á móti liði Lionel Messi og hefur ennfremur aðeins fagnað sigri í einum af þessum fimm leikjum. Hann ætlar sér örugglega að breyta því núna.

Cristiano Ronaldo er langmarkahæsti leikmaður Meistaradeildarinnar frá upphafi með 130 mörk á móti 115 mörkum frá Lionel Messi. Ronaldo hefur líka unnið Meistaradeildina fimm sinnum en Messi hefur bara unnið hana fjórum sinnum.

Augu fótboltaheimsins verða örugglega á innbyrðis leikjum Barcelona og Juventus í Meistaradeildinni í vetur enda fáum við ekki mörg ár í viðbót með þeim Lionel Messi og Cristiano Ronaldo upp á sitt besta.

Meistaradeildin verður áfram í beinni á Stöð 2 Sport og þar verða líka Meistaradeildarmessan og Meistaradeildarmörkin á hverju kvöldi sem leikir fara fram í riðlakeppninni. Fyrstu leikirnir í beinni verða Dynamo Kiev-Juventus (Þriðjudagurinn 20. október klukkan 16.45) og PSG-Manchester United (Þriðjudagurinn 20. október klukkan 18.50).


Tengdar fréttir

7 dagar í Meistaradeildina: Fyrstu fullkomnu meistararnir

Meistaradeildin í knattspyrnu fer af stað á nýjan leik á þriðjudaginn í næstu viku þegar riðlakeppnin hefst með átta leikjum í riðlum E til H. Vísir ætlar að telja niður í Meistaradeildina og í dag skoðum við magnaða meistara síðasta tímabils.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×