Innlent

Öku­tæki mögu­lega á ferðinni við vett­vang þegar eldurinn var hvað mestur

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lögreglan á Suðurlandi fer með rannsókn brunans.
Lögreglan á Suðurlandi fer með rannsókn brunans. Vísir/vilhelm

Lögregla á Suðurlandi óskar nú sérstaklega eftir að heyra frá þeim sem voru á ferðinni í Grafningi á um tveggja klukkustunda tímabili síðasta föstudagskvöld vegna bruna sem varð í húsbíl á svæðinu. Þá telur sjónarvottur að bifreið hafi verið ekið við brunavettvanginn þegar eldurinn var hvað mestur og óskar lögregla eftir upplýsingum frá þeim sem þar hefur mögulega verið á ferðinni.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu á Suðurlandi vegna málsins í morgun. 

Karlmaður lést í brunanum sem varð í húsbíl við Torfastaði í Grafningi í Árnessýslu á föstudagskvöld. Rannsókn málsins hefur leitt í ljós að um klukkan 23:30 var reynt að tilkynna Neyðarlínu um eld sem gæti mögulega verið í bíl eða húsi í landi Torfastaða. 

„Tilkynnanda var gefið samband frá Neyðarlínu til fjarskiptamiðstöðvar lögreglu en þar virðist, að hans sögn, hafa hringt út,“ segir í tilkynningu lögreglu.

Fleiri hafa nú haft samband við lögreglu með upplýsingar um málið. Tímasetning brunans liggur nú fyrir og því óskar lögregla sérstaklega eftir að heyra frá þeim sem voru á ferðinni í Grafningi og þar í grennd á tímabilinu frá því um klukkan 22 og til miðnættis á föstudagskvöldið. 

Þá er sá sem hringdi í Neyðarlínu sagður hafa talað sérstaklega um mögulega umferð ökutækis við brunavettvanginn þegar eldurinn var hvað mestur. Lögregla óskar eftir því að fá upplýsingar frá þeim sem þar hefur mögulega verið á ferðinni. Upplýsingum má koma til lögreglu í síma 444-2000, á Facebook eða í tölvupósti á netfangið sudurland@logreglan.is.

Oddur Árnason yfirlögregluþjónn á Suðurlandi gat ekki veitt aðrar upplýsingar um málið nú á ellefta tímanum en að það væri í rannsókn. Sá hluti málsins er snýr að tilkynningu til Neyðarlínu er á borði embættis ríkislögreglustjóra og Neyðarlínu.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Lést í húsbílabrunanum

Líkamsleifar sem taldar eru af manni á fertugsaldri fundist í rústum húsbíls sem brann í landi Torfastaða í Grafningi í Árnessýslu. Lögreglan á Suðurlandi biður þá sem telja sig hafa orðið vara við eld eða reyk á þessum slóðum í nótt eða framan af degi að hafa samband.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×