Innlent

Segir það óafsakanlegt að hafa farið í golf

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er formaður Viðreisnar. Vísir/Vilhelm

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, segir að það hafi verið óafsakanlegt af hennar hálfu að fara í golf í dag á golfvellinum í Hveragerði, þrátt fyrir tilmæli þess efnis að kylfingar frá höfuðborgarsvæðinu sæki ekki í golf á völlum utan höfuðborgarsvæðisins. Mbl.is greindi fyrst frá.

Golfvellir á höfuðborgarsvæðinu hafa verið lokaðir frá og með gærdeginum og verða lokaðir til 19. október eftir tilmæli frá sóttvarnarlækni vegna kórónuveirufaraldursins. Tilmæli hafa einnig verið gefin út þess efnis að íbúar höfuðborgarsvæðisins haldi sig heima nema brýna nauðsyn beri til. GSÍ mæltist einnig til þess að kylfingar í Reykjavík og nágrenni eigi ekki að svala golfþorstanum með því að fara út fyrir höfuðborgarsvæðið.

Í samtali við Vísi segir Þorgerður Katrín, sem er meðstjórnandi í stjórn GSÍ, að hún hafi ekki farið sérstaklega til Hveragerðis til þess að leika golf í dag, hún dvelji þessa dagana í Ölfusi og hafi gert að undanförnu.

Hún nýtti hins vegar tækifærið og spilaði golf á vellinum í Hveragerði í dag, sem reyndar er lokaður öðrum en félagsmönnum frá og með hádegi í gær. Þorgerður Katrín er ekki meðlimur í golfklúbbi Hveragerðis. Segir hún í samtali við Vísi að í ljósi þeirra tilmæla um að íbúar höfuðborgarsvæðins fari ekki í golf utan höfuðborgarsvæðisins hafi það verið óafsakanlegt af hennar hálfu að hafa farið í golf á vellinum í Hveragerði í dag.

Nokkurrar óánægju hefur gætt meðal kylfinga á höfuðborgarsvæðinu með þá ákvörðun GSÍ að loka golfvöllum á höfuðborgarsvæðinu, enda tókst sambandinu og aðildarfélögum þess ágætlega að tryggja golfiðkun með sóttvörnum í fyrri bylgjum kórónuveirufaraldursins. Þorgerður Katrín segir þó það ekki skipta máli í þessu máli, hún hafi átt að vita betur en að fara í golf í Hveragerði í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×