Innlent

Álagið meira en í fyrstu bylgjunni þar sem ekki hefur dregið úr virkni samfélagsins

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans.
Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans. Vísir/Egill

Geta Landspítalans til að takast á við þessa þriðju bylgju faraldursins er umtalsverð að sögn yfirlæknis smitsjúkdómadeildar. Álagið á heilbrigðiskerfið er þó meira nú en í vor þar sem ekki hefur dregið eins mikið úr virkni samfélagsins. 87 greindust með kórónuveiruna innanlands í gær.

Meirihlutinn í sóttkví

Af þeim 87 sem greindust með kórónuveiruna innanlands í gær voru 65% þeirra í sóttkví við greiningu en það nokkuð hærra hlutfall en sést hefur síðustu daga. Níu greindust á landamærunum, tveir með virkt smit en sjö bíða mótefnamælingar.

25 eru inniliggjandi á Landspítalanum og þar af eru 3 á gjörgæslu og tveir þeirra í öndunarvél. Sóttvarnalæknir segir að nú sé ekki lengur mestmegnis ungt fólk að veikjast.

„Við eru að sjá aukinn fjölda af eldri einstaklingum veikjast og þá förum við að sjá meiri veikindi,“ sagði Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.

Hann á von á að innlögnum á spítalann fjölgi.

Landspítalinn í Fossvogi.Vísir/Vilhelm

Ekki vöntun á öndunarvélum

Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar á Landspítalanum segir getu spítalans umtalsverða til að takast á við þessa þriðju bylgju faraldusins. Nægar öndunarvélar séu til. Gjörgæslan sem slík sé ekki takmarkandi þáttur - heldur mannskapurinn.

„Þannig við gætum tekið alveg upp í 20 manns á gjörgæslu en það myndi þýða gjörbylting í allri starfsemi spítalans,“ sagði Már Kristjánsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítalans.

Hann segir álagið á heilbrigðiskerfið meira nú en í fyrstu bylgju faraldursins þar sem ekki hefur dregið eins mikið úr virkni í samfélaginu.

„Það sem við erum að sjá hér núna er að auk þess að fá inn covid veika einstaklinga þá erum við að fá inn allt annað. Það eru umferðaslys, vinnuslys og svo náttúrulega tilfallandi veikindi sem dró veruleg úr í vetur. Þannig þetta er allt öðruvísi faraldur eins og við sjáum hann og þess vegna er það þannig að við búumst við því að þetta verði jafnvel stærri kúfur heldur en var áður,“ sagði Már Kristjánsson.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×