Enski boltinn

Paul Pogba segist dreyma um að spila fyrir Real Madrid einn daginn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það gekk ekkert upp hjá Paul Pogba og félögum í Manchester United í síðasta deildarleik á móti Tottenham en sá leikur tapaðist 6-1 á Old Trafford.
Það gekk ekkert upp hjá Paul Pogba og félögum í Manchester United í síðasta deildarleik á móti Tottenham en sá leikur tapaðist 6-1 á Old Trafford. EPA-EFE/Alex Livesey

Paul Pogba, miðjumaður Manchester United, hefur nú viðurkennt það að það sé draumur hans að spila fyrir spænska stórliðið Real Madrid. Hann ætlar samt að gera allt sem hann getur til að koma United liðinu þangað sem það á að vera.

Pogaa er 27 ára gamall og hefur reglulega verið orðaður við félög sunnar í Evrópu. Manchester United keypti hann á 89 milljónir punda árið 2016 en samningur hans rennur út næsta sumar. Manchester United hefur þó möguleika á því að framlengja hann um eitt ár til 2022.

Paul Pogba segist ekki hafa rætt við Manchester United um nýjan samning.

„Enginn hefur sagt mér neitt. Ég hef ekki rætt við Ed Woodward. Við höfum ekki rætt nýjan samning,“ sagði Paul Pogba á blaðamannafundi hjá franska landsliðinu en breska ríkisútvarpið segir frá.

„Eins og staðan er núna þá er ég í Manchester og er að einbeita mér að því að komast í mitt besta form. Ég held samt að það komi sá tími að félagið muni koma til mín, tala við mig og kannski bjóða mér eitthvað,“ sagði Pogba.

Paul Pogba hefur verið orðaður mikið við Real Madrid og leikmaðurinn var spurður út í þann möguleika.

„Allir fótboltamenn myndu elska það að spila fyrir Real Madrid. Það er minn draumur og af hverju ekki einhvern daginn,“ sagði Pogba.

„Ég er í Manchester og elska mitt félag. Ég er að spila í Manchester, hef gaman af því og ég vil gera til allt til þess að koma félaginu þangað sem það á skilið að vera. Ég mun gefa allt mitt í það eins og liðsfélagar mínir,“ sagði Paul Pogba.

Paul Pogba og félagar í Manchester United eru aðeins með einn sigur í fyrstu þremur leikjum tímabilsins og töpuðu 6-1 á móti Tottenham í síðasta leiknum fyrir landsleikjahlé.

Pogba hefur byrjað alla þessa leiki. Hann fékk kórónuveiruna í ágúst en var búinn að ná sér þegar tímabilið hófst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×