Fótbolti

„Að komast á EM hefur verið markmið okkar allra síðan ég tók við liðinu“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Erik Hamrén fylgist með æfingu íslenska landsliðsins á Laugardalsvelli í morgun.
Erik Hamrén fylgist með æfingu íslenska landsliðsins á Laugardalsvelli í morgun. vísir/vilhelm

Erik Hamrén segir að allir í íslenska hópnum séu heilir og klárir í bátana fyrir leikinn gegn Rúmeníu annað kvöld. Sigurliðið kemst í úrslitaleik í umspili um sæti á EM 2020.

„Allir æfa á fullu. Sverrir [Ingi Ingason] gat ekki verið með á æfingunni í gær því hann var ekki búinn að niðurstöðu úr kórónuveiruprófinu. En allir eru í góðu ásigkomulagi og tilfinningin er góð,“ sagði Hamrén í samtali við Vísi fyrir æfingu landsliðsins á Laugardalsvelli í morgun.

Hafa verið í þessari stöðu áður

Leikreynslan í íslenska hópnum er mikil og mun meiri en í þeim rúmenska. Hamrén segir að það muni hjálpa þegar út í leikinn verður komið.

„Það er gott að vera með leikmenn sem hafa verið í þessari stöðu áður, að spila svona erfiða og mikilvæga leiki. Þetta er gott fyrir einstaklingana og liðið að hafa gert þetta saman mörgum sinnum,“ sagði Hamrén.

Það var létt yfir mönnum á æfingunni í morgun.vísir/vilhelm

Svíinn segir erfitt að neita því að leikurinn annað kvöld sé sá mikilvægasti síðan hann tók við landsliðinu haustið 2018.

„Það má segja það því ef við vinnum á morgun eigum við möguleika á að komast á Evrópumótið sem hefur verið markmið okkar allra síðan ég tók við liðinu,“ sagði Hamrén.

Góðar skyttur

Í síðustu landsleikjahrinu vann Rúmenía Austurríki, 2-3, og gerði 1-1 jafntefli við Norður-Írland í B-deild Þjóðadeildarinnar. Þessi úrslit skiluðu Rúmenum upp um þrjú sæti á styrkleikalista FIFA. Rúmenía er í 34. sæti listans, sjö sætum fyrir ofan Ísland.

„Þetta er sterkt lið. Þeir eru fyrir ofan okkur á styrkleikalistanum. Þetta eru tvö jöfn lið. Þetta er 50-50 leikur. Þeir eru með mjög góða einstaklinga, öflugir í skyndisóknum og með góða skotmenn. Svo eru þeir sterkir í föstum leikatriðum,“ sagði Hamrén.

Engir áhorfendur verða á leiknum á Laugardalsvelli annað kvöld, fyrir utan 60 meðlimi Tólfunnar sem munu væntanlega öskra sig hása við að hvetja íslenska liðið áfram.

„Ég hefði auðvitað kosið að vera með fullan völl. Það er heimaliðinu í hag. En það er ekki svoleiðis og við þurfum að sætta okkur við það. Ég er viss um að það muni heyrast í þessum 60 Tólfumeðlimum eins og völlurinn væri fullur,“ sagði Hamrén.

Æfðu vítaspyrnur

Leikið verður til þrautar á morgun og úrslitin gætu því ráðist í vítaspyrnukeppni. Íslenska liðið er búið undir það.

Við æfðum vítaspyrnur aðeins í gær og munum gera það aftur í dag svo við höfum prófað það. Það er samt mikill munur að taka víti á æfingum og í leikjum. En að sjálfsögðu munum við æfa vítin,“ sagði Hamrén að lokum.

Leikur Íslands og Rúmeníu hefst klukkan 18.45 á morgun en leikurinn verður í beinni á Stöð 2 Sport og á Stöð 2. Upphitun hefst á Stöð 2 Sport klukkan 17.45.

Klippa: Viðtal við Hamrén

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×