Enski boltinn

Hefði í raun kostað Manchester United rúma fjörutíu milljarða að fá Sancho

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manchester United hætti við að reyna að kaupa Jadon Sancho alveg eins og félagið hætti við að reyna að kaupa Erling Braut Håland í janúarglugganum. Manchester United hefði mögulega verið annars með þessa tvo í fremstu víglínu.
Manchester United hætti við að reyna að kaupa Jadon Sancho alveg eins og félagið hætti við að reyna að kaupa Erling Braut Håland í janúarglugganum. Manchester United hefði mögulega verið annars með þessa tvo í fremstu víglínu. Getty/Alex Gottschalk

Manchester United var búið að reikna heildarkostnaðinn við það að kaupa Jadon Sancho og hann var miklu meiri en þær 120 milljónir evra sem Borussia Dortmund vildi fá fyrir leikmanninn.

Margir hafa klórað sér í hausnum yfir því af hverju Manchester United var ekki tilbúið að borga þá upphæð fyrir Jadon Sancho sem þýska félagið Borussia Dortmund vildi fá.

Jadon Sancho er ungur landsliðsmaður sem hefur mikla hæfileika og tíma til að gera mikið fyrir félagið í framtíðinni. Á endanum snerist þetta um mikinn kostnað í erfiðu efnahagsumhverfi.

Málið er nefnilega ekki alveg svo einfalt eins og kemur vel fram í grein hjá Guardian um ástæður þess að Manchester United gaf það upp á bátinn að kaupa Jadon Sancho.

Guardian slær því upp að það hefði kostað Manchester United 250 milljónir evra í heildina að kaupa Sancho. Það gera rúma 40,8 milljarða í íslenskum krónum

Þessi upphæð kemur til vegna kostnaðarins sem leggst við kaupverðið en þar erum við að tala um launakröfur leikmannsins sem og það sem þurfti að borga umboðsmanni hans sem heitir Emeka Obasi.

„Félagið ákvað að þetta væri ekki framkvæmanlegt í núverandi efnahagsástandi í miðjum heimsfaraldri,“ segir í frétt Jamie Jackson í Guardian.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Manchester United bakkar út úr kaupum á framtíðarstjörnu en í ársbyrjun hætti félagið einnig við að kaupa Norðmanninn Erling Braut Håland og ekki síst vegna þeirrar háu upphæðar sem umboðsmaðurinn Mino Raiola vildi fá.

Manchester United býst ekki við að fá áhorfendur á heimleiki liðsins fyrr en í mars en það er talið að félagið tapi um fimm milljónum punda á hverjum áhorfendalausum leik.

Það er búist við því að Manchester United tilkynni um mikinn taprekstur á næstu dögum vegna síðasta ársfjórðungs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×