Fótbolti

Kjartan Henry farinn frá Velje og var ekki lengi að finna sér nýtt félag

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kjartan Henry Finnbogason skoraði sautján mörk fyrir Velje í dönsku B-deildinni á síðasta tímabili.
Kjartan Henry Finnbogason skoraði sautján mörk fyrir Velje í dönsku B-deildinni á síðasta tímabili. getty/Lars Ronbog

Kjartan Henry Finnbogason er laus allra mála hjá Velje eftir að hann komst að samkomulagi um starfslok við danska úrvalsdeildarliðið.

Hann var ekki lengi að finna sér nýtt lið og er genginn í raðir Horsens á nýjan leik. Kjartan lék með Horsens á árunum 2014-18. Hann skrifaði undir samning við Horsens sem gildir fram á næsta sumar.

Kjartan skoraði grimmt fyrir Velje í dönsku B-deildinni á síðasta tímabili en á þessu tímabili hefur hann ekki verið inni í myndinni hjá Constantin Galca, þjálfara liðsins. Í síðasta mánuði lýsti Kjartan yfir furðu sinni á því hversu fá tækifæri hann hefði fengið hjá Velje.

„Við höfum ákveðið að rifta samningi Kjartans svo hann geti uppfyllt metnað sinn að leika fyrir aðallið. Við þökkum honum fyrir hans framlag og óskum honum góðs gengis,“ segir Jacob Krüger, íþróttastjóri Velje, á heimasíðu félagsins.

Kjartan lék eins og áður sagði með Horsens á árunum 2014-18. Hann skoraði 50 mörk í 130 leikjum fyrir liðið.

Kjartan er annar Íslendingurinn sem Horsens fær á jafn mörgum dögum en í gær tilkynnti félagið að Ágúst Eðvald Hlynsson væri kominn frá Víkingi.

Kjartan, sem er 34 ára, hefur einnig leikið í Skotlandi, Svíþjóð, Noregi og Ungverjalandi á ferlinum auk þess að spila fyrir KR hér á landi. Hann hefur leikið þrettán A-landsleiki fyrir Ísland og skorað þrjú mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×