Fótbolti

Kjartan Henry undrandi yfir því að vera settur á vara­manna­bekkinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kjartan Henry í baráttunni með Vejle á síðustu leiktíð.
Kjartan Henry í baráttunni með Vejle á síðustu leiktíð. vísir/getty

Kjartan Henry Finnbogason var mjög ósáttur með að hefja leik í dönsku úrvalsdeildinni á bekknum. Lið hans, Vejle, eru nýliðar í dönsku úrvalsdeildinni en Kjartan skoraði 17 mörk er liðið vann dönsku B-deildina á síðustu leiktíð.

Vejle var 3-0 undir gegn AGF í fyrsta leik tímabilsins er Kjartan Henry kom inn af bekknum í kvöld. Þó hann hafi ekki verið á skotskónum þá skoraði Vejle tvívegis eftir að Kjartan kom inn af bekknum á 69. mínútu. Kjartan og félagar minnkuðu muninn í 3-2 en AGF bætti fjórða markinu við undir lok leiks, lokatölur 4-2.

Eftir leik mætti Kjartan í viðtal við dönsku sjónvarpsstöðuna TV3 og þar gaf hann í skyn að hann væri ekki sáttur með bekkjarsetuna.

„Já það kom mér á óvart,“ sagði Kjartan aðspurður hvort honum hefði verið brugðið yfir því að hefja leik á bekknum.

„Við erum með eiganda sem hefur keypt nýja leikmenn og þeir fá tækifæri til að sýna hvað þeir geta. Það er undir mér komið að sýna hvað ég get þegar ég fæ tækifæri til. Ég er vissulega orðinn aðeins eldri en er enn í góðu formi og var markahæstur á síðustu leiktíð. Finnst að ég eigi skilið aðeins meira traust en þetta,“ sagði framherjinn að lokum.

Raphael Dwamena, einn af nýju leikmönnum Vejle, hóf leikinn en skoraði ekki fyrr en Kjartan Henry kom inn á. Mögulega byrja þeir saman næsta leik.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.