Enski boltinn

Arsenal rak lukkutröllið sitt til 27 ára

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnersaurus er núna orðinn atvinnulaus og þarf að fara að leita sér að nýrri vinnu.
Gunnersaurus er núna orðinn atvinnulaus og þarf að fara að leita sér að nýrri vinnu. Getty/James Williamson

Arsenal hefur ákveðið að segja upp manninum sem hefur leikið lukkutröllið á heimaleikjum liðsins undanfarin 27 ár.

Arsenal hefur verið að segja upp starfsfólki í sparnaðaraðgerðum en kórónuveiran hefur kallað á mikinn niðurskurð frá félaginu.

Jerry Quy heitir maðurinn sem hefur leikið Gunnersaurus undanfarin 27 ár en hann fórnaði meira að segja giftingu bróður síns fyrir einn leikinn.

Á sama tíma og Arsenal er að segja upp starfsfólki sínu eins og Jerry Quy þá fær Mesut Özil 350 þúsund pund á viku, tæpar 63 milljónir króna, og hann hefur ekki spilað mínútu með liðinu síðan í mars.

David Ornstein á The Athletic sagði frá því að Jerry Quy hafi leikið lukkutröllið á heimaleikjum Arsenal síðan árið 1993.

Það eru náttúrulega engir áhorfendur leyfðir á heimaleikjum liðsins og því er ekki talin vera þörf fyrir Gunnersaurus og þar með Jerry Quy.

Arsenal sagði upp 55 manns í ágúst sem stuðningsmenn félagsins voru allt annað en ánægðir með. Leikmenn voru líka ósáttir því flestir þeirra höfðu tekið á sig launalækkun til að koma í veg fyrir slíkar aðgerðir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×