Fótbolti

Segir rétt að refsa Foden og Greenwood áfram fyrir hegðun þeirra á Íslandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Phil Foden og Mason Greenwood á æfingu með enska landsliðinu.
Phil Foden og Mason Greenwood á æfingu með enska landsliðinu. Getty/Mike Egerton

Ensku vandræðagemlingarnir frá því í Bændahöllinni voru ekki valdir í nýjasta enska landsliðshópinn í gær og sérfræðingur á breska ríkisútvarpinu segir það vera rétta ákvörðun hjá enska landsliðsþjálfaranum.

Gareth Southgate valdi í gær sinn fyrsta landsliðshóp eftir ferðalagið til Íslands þar sem tveir af efnilegustu leikmönnum enska landsliðsins gerðust sekir um að brjóta sóttkví með því að hitta íslenskar stelpur á hóteli enska landsliðsins.

Southgate sendi þá Phil Foden og Mason Greenwood heim frá Íslandi með skömm þegar upp komst um hegðun þeirra og þeir misstu því af seinni leiknum í landsliðsglugganum sem var á móti Danmörku.

Phil Foden og Mason Greenwood missa líka af næstu þremur leikjum liðsins því Gareth Southgate valdi þá ekki í landsliðshópinn sinn fyrir komandi leiki á móti Wales, Belgíu og Danmörku.

Phil McNulty, knattspyrnusérfræðingur á breska ríkisútvarpinu, er sammála ákvörðun Southgate að refsa Foden og Greenwood áfram fyrir hegðun þeirra á Íslandi.

„Southgate átti rétt á því að vera reiður út í þá Foden og Greenwood fyrir heimskupör þeirra og það að þeir brugðust hans trausti á Íslandi. Það var því óumflýjanlegt að þeir yrðu ekki með að þessu sinni. Þeir þurfa að fálengri tíma til að hugsa betur um hvað þeir gerðu,“ skrifaði Phil McNulty.

McNulty er þó viss um að þeir Phil Foden og Mason Greenwood verði ekki lengi í skammakróknum hjá Gareth Southgate.

„Foden og Greenwood verða báðir komnir aftur inn í landsliðið áður en langt um líður. Þetta eru tveir mjög hæfileikaríkir leikmenn sem hafa alla burði til að spila lykilhlutverk í enska landsliðinu á Evrópumótinu næsta sumar sem og mörg ár í viðbót,“ skrifaði McNulty.

„Það er aftur á móti fullkomlega réttlætanlegt að Southgate skuli núna ítreka skilaboð sín um það sem á ekki að koma fyrir innan enska hópsins. Það er líka gott fyrir strákana að stíga aðeins út úr sviðsljósinu eftir að hafa eignað sér allar þessar fyrirsagnir sem landsliðsþjálfarinn þarf ekki á að halda,“ skrifaði McNulty. Það má sjá allan pistil hans hér.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.