Innlent

Sigurður Ingi stal senunni: „Ræðan mín er ónýt“

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Sigurður Ingi Jóhannsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson. Vísir/Vilhelm

Það vakti nokkra lukku á Alþingi í kvöld þegar Sigurður Ingi Jóhannsson greip orð Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, á lofti í upphafi ræðu hans í eldhúsdagsumræðu á þingi í kvöld.

Augljóst var að upphaf ræðu Sigurðar Inga var ekki sú ræða sem hann hafði skrifað fyrirfram en hann skaut léttum skotum á ræður Loga og Sigmundar Davíðs sem voru á undan honum í pontu.

„Formaður Miðflokksins sagði hér í sinni ræðu að stefna ríkisstjórnarinnar væri stefna Vinstri grænna. Formaður Samfylkingarinnar kom síðan hér upp og segir að stefnan sé hægri stefna Sjálfstæðisflokksins. Svarið liggur auðvitað í augum uppi. Stefna ríkisstjórnarinnar er stefna Framsóknarflokksins,“ sagði Sigurður Ingi og uppskar hlátur viðstaddra.

Vitnaði hann aftur í Loga og ræðu hans þar sem hann hafði komið inn á að þörf væri á metnaðarfullu fjárfestingarátaki sem væri grænt að upplagi.

„Og það er rétt hjá formanni Samfylkingarinnar það sem hann sagði Vinna, vöxtur, velferð sem eru kjörorð Framsóknarflokkstefnunnar og Samfylkingin er að taka upp. Og þegar hann lýsti síðan hvaða áform þyrfti að fara í í fjárfestingarátakinu þá var hann að lýsa fjárfestingarátaki ríkisstjórnarinnar og það er rétt hjá formanni Samfylkingarinnar að allur heimurinn er að fara í þessa átt.“

Eins og fyrr segir var ljóst að Sigurður Ingi hafði ekki ætlað sér að hefja ræðu sína á þessum orðum, og varð það augljóst er hann lauk þessari eldræðu og renndi sér yfir í þá ræðu sem hann hafði áætlað að fara með.

„Þannig að ræðan mín er ónýt. Ég þurfti að byrja á þessu.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×