Fótbolti

Dembélé í vandræðum eftir að hafa mætt of seint enn einn ganginn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ousmane Dembélé virðist ekki hafa mikið tímaskyn.
Ousmane Dembélé virðist ekki hafa mikið tímaskyn. getty/Joan Gosa

Þrátt fyrir að vera 23 ára virðist Ousmane Dembélé, leikmaður Barcelona, ekki kunna á klukku. Hann á allavega í miklum vandræðum með að mæta á æfingar á réttum tíma.

Dembélé mætti stundarfjórðungi of seint á æfingu Barcelona í gær sem mæltist ekki vel fyrir hjá Ronald Koeman, knattspyrnustjóra liðsins.

Dembélé kom inn á sem varamaður á 70. mínútu þegar Barcelona vann Villarreal, 4-0, í 1. umferð spænsku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn.

Barcelona keypti Dembélé frá Borussia Dortmund fyrir 97 milljónir punda 2017. Honum hefur ekki tekist að festa sig í sessi hjá Katalóníufélaginu en meiðsli og agavandamál hafa sett strik í reikning hans.

Eftir að Dembélé mætti of seint á æfingu tímabilið 2018-19 bannaði Barcelona honum að spila tölvuleiki fram á nótt og skipuðu honum að vera alltaf með kveikt á símanum sínum.

Koeman, sem tók við Barcelona í sumar, virðist hafa meiri trú á leikmönnum eins og Ansu Fati, Antoine Griezmann og Philippe Coutinho en Dembélé. Þeir voru allir í byrjunarliðinu gegn Villarreal á sunnudaginn.

Næsti leikur Barcelona er gegn Celta Vigo í spænsku úrvalsdeildinni á fimmtudaginn.


Tengdar fréttir

Of ungur til að vera kosinn maður leiksins

Gengið var framhjá hinum sautján ára gamla Ansu Fati þegar var valinn maður leiksins í fyrsta deildarleik Barcelona undir stjórn Ronald Koeman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×