Innlent

Aldrei fleiri á farsóttarhótelinu en nú

Vésteinn Örn Pétursson og Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifa

Aldrei hafa fleiri dvalið á farshóttarhótelinu á Rauðarárstíg í Reykjavík. Hótelið er úrræði fyrir fólk sem þarf að vera í einangrun vegna kórónuveirusýkingar og getur illa verið í einangrun á heimili sínu.

Gylfi Þór Þorsteinsson, umsjónarmaður hótelsins, segir ýmislegt geta skýrt þann metfjölda sem nú dvelur á hótelinu.

„Meðal annars það að við erum með mikið af ungu fólki í þessari bylgju, fólk sem kannski býr með öðrum, leigir í íbúðum þar sem kannski fjórir, fimm búa saman. Við erum með fólk utan af landi sem þarf að vera nálægt Covid-deildinni [á Landspítalanum]. Við erum með ungar mæður sem eiga kannski erfitt með að vera heima með ungum börnum sínum. Við erum með alla flóruna hérna,“ sagði Gylfi í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Aðspurður segir Gylfi þá að hótelið sé nánast búið að sprengja utan af sér.

„Við opnuðum aftur hér neðar í götunni um daginn og þurfum að hafa þar opið í einhvern tíma. Það eru núna 63 gestir hjá okkur í húsunum og þeim fer því miður bara fjölgandi.“

Gylfi segir þá að starfsfólkið sem sér um gestina mætti vera fleira.

„Við erum sjö sem sinnum gestunum. Nei, það er ekki nóg. Við vorum að auglýsa eftir fleira fólki inni á Alfreð. Okkur vantar fólk og það er bara vonandi að einhverjir taki við sér,“ segir Gylfi, sem hvetur fólk til að sækja um á hótelinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.