Enski boltinn

Graeme Souness á því að Liverpool gæti líka stungið af í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sadio Mane í leik með Liverpool á móti Manchester City á síðasta tímabili.
Sadio Mane í leik með Liverpool á móti Manchester City á síðasta tímabili. Getty/Andrew Powell

Hörmungarframmistaða Manchester City í gær fékk sérfræðing Sky Sports til að spá því að Liverpool gæti unnið aftur yfirburðasigur í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

Manchester City steinlá 5-2 á heimavelli á móti Leicester City í ensku úrvalsdeildinni í gær og það lítur út fyrir það að Pep Guardiola hafi ekki tekist að laga vandræðin í varnarleik liðsins.

Eric Garcia, Kyle Walker og Benjamin Mendy gáfu allir klaufalegar vítaspyrnur og Manchester City liðið kolféll á prófinu í fyrsta heimaleiknum á nýju tímabili.

Eins og síðustu tvö tímabil búast flestir við því að Manchester City og Liverpool keppi um enska meistaratitilinn í ár. Manchester City var einu stigi á undan Liverpool 2018-19 tímabilið en á síðustu leiktíð vann Liverpool yfirburðasigur.

Sérfræðingur Sky Sports er farinn að sjá fyrir sér að Liverpool stingi aftur af eftir að hafa horft upp á hörmungarframmistöðu City liðsins á heimavelli.

„Liverpool vann deildina með átján stigum á síðasta tímabili og að mínu mati er liðið bara orðið enn sterkara í dag,“ sagði Graeme Souness á Sky Sports.

Manchester City er að ganga frá kaupunum á miðverðinum Ruben Dias frá Benfica en þarf meira til samkvæmt áliti Sky Sports sérfræðingsins.

„Ég horfi á City liðið núna hvort sem Ruben Dias komi inn í liðið eða ekki. Það þarf meira en Ruben Dias fyrir City að vinna upp átján stiga forskot Liverpool. Liverpool liðið er sterkari í dag en það var fyrir tólf mánuðum,“ sagði Graeme Souness.

„Sumir leikmenn þurfa fimm eða sex leiki til að koma sér inn í hlutina. Eins og staðan er núna þá tel ég að Liverpool geti stungið af,“ sagði Graeme Souness.

Liverpool spilar sinn leik í þriðju umferð ensku úrvalsdeildarinnar í kvöld þegar Arsenal kemur í heimsókn á Anfield. Bæði liðin hafa unnið tvo fyrstu leiki sína á tímabilinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×