Innlent

220 börn í Vestur­bænum í úr­vinnslu­sótt­kví eftir smit í frí­stund

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Talsverður fjöldi nemenda við Melaskóla er nú í sóttkví.
Talsverður fjöldi nemenda við Melaskóla er nú í sóttkví. Vísir/vilhelm

Heill bekkur í 3. bekk í Melaskóla er kominn í sjö daga sóttkví eftir að nemandi greindist með kórónuveiruna. Um 220 börn sem sóttu safnfrístund í Vesturbænum eru í úrvinnslusóttkví vegna smitsins. Börnin eru úr Vesturbæjarskóla, Grandaskóla og Melaskóla.

Börnin sem þurfa að fara í úrvinnslusóttkví eru 3. og 4.-bekkingar sem sóttu frístundaheimilið Frostheima á þriðjudag. Þá þurftu tveir starfsmenn frístundaheimilisins að fara í sóttkví. Frístundaheimilið er áfram opið þeim sem ekki eru í sóttkví.

Helgi Grímsson sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar segir í samtali við Vísi að vegna samnýtingar barnanna á matsal og salernum frístundaheimilisins hafi smitrakningateymið ákveðið að þau færu öll í úrvinnslusóttkví.

Ekki náðist í Björgvin Þór Þórhallsson skólastjóra Melaskóla við vinnslu fréttarinnar en hann segir í samtali við Ríkisútvarpið að ekki sé búið að ákveða hvort gripið verði til frekari aðgerða innan skólans. Þá sé einn kennari í Melaskóla í sóttkví.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.