Íslenski boltinn

Óskar Hrafn: Verður að passa að halda einhverju jafnvægi í þessu brjálæði sem þetta er

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Óskar Hrafn Þorvaldsson ásamt aðstoðarmönnum sínum, Gunnleifi Gunnleifssyni og Halldóri Árnasyni.
Óskar Hrafn Þorvaldsson ásamt aðstoðarmönnum sínum, Gunnleifi Gunnleifssyni og Halldóri Árnasyni. vísir/vilhelm

Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, var sáttur með sína menn eftir sigurinn á Stjörnunni, 2-1, á Kópavogsvelli í kvöld.

„Ég er mjög ánægður með frammistöðuna. Það er ánægjulegt að núna spiluðum við vel langstærstan hluta leiksins og fylgdum því eftir með því að taka þrjú stig,“ sagði Óskar í samtali við Vísi eftir leik.

Stjarnan komst yfir á 28. mínútu, þvert gegn gangi leiksins. Það virtist ekki fá mikið á leikmenn Breiðabliks sem gáfu bara enn frekar í þegar þeir lentu undir.

„Leikmennirnir sýndu mikið þolgæði. Við fundum það í byrjun að við vorum með ágætis tak á Stjörnumönnunum og náðum að þrýsta þeim aftarlega. En það er erfitt að brjóta Stjörnuna á bak aftur. Þeir eru feykilega öflugir og vel skipulagðir,“ sagði Óskar.

„Það var alveg ljóst að þetta myndi taka tíma en við vorum þolinmóðir sem er eitthvað sem hefur vantað upp á í síðustu leikjum. Mér fannst þetta vera frábær frammistaða hjá mínu liði.“

En hvað var Óskar ánægðastur með í leik Breiðabliks í kvöld?

„Þolinmæðina sem við sýndum. Við héldum planinu sem við lögðum upp með í byrjun. Ég var ánægður með hvernig við unnum boltann fljótt aftur eftir að við töpuðum honum sem segir okkur að liðið var vel skipulagt. Margar sóknir okkar voru feykilega góðar. Svo sýndum við þroska með því að sigla þessu heim. Það var ljóst að á meðan munurinn var bara eitt mark var Stjarnan aldrei að fara að leggjast undir sæng og hætta,“ sagði Óskar.

„Við vissum að þeir myndu koma á einhverjum tímapunkti og við stóðumst það áhlaup vel. Ég er bara sáttur en auðvitað er það þannig, eins og ég sagði fyrir leik, að maður verður að passa sig að halda einhverju jafnvægi í þessu brjálæði sem þetta er. Ekki verða ofsakátur þegar þú vinnur og falla í svartnætti þegar þú tapar. Við höfum reynt að gera það.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.