Innlent

Líklegt að frost mælist víða næstu nótt

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hitaspá Veðurstofu Íslands fyrir næstu nótt sýnir ansi mikinn kulda víða um land.
Hitaspá Veðurstofu Íslands fyrir næstu nótt sýnir ansi mikinn kulda víða um land. Veðurstofa Íslands

Nokkuð hefur snjóað til fjalla á norðanverðu landinu í nótt þótt úrkoman hafi verið rigning eða slydda víðast hvar á láglendi.

Í dag verður norðan strekkingur og áframhaldandi éljagangur norðan heiða en yfirleitt léttskýjað sunnan- og vestanlands, að því er segir í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.

Er líður á daginn mun draga úr ofankomu og vindi og í kvöld verður orðið bjart að mestu á öllu landinu. Hægum vindi og björtum nóttum fylgir hins vegar kólnun og er því líklegt að frost mælist víða næstu nótt.

Snjórinn mun svo ekki stoppa lengi við í þetta skipti því á morgun er vaxandi suðaustanátt er skil frá næstu lægð nálgast landið úr suðvestri. Með þessum skilum þykknar og hlýnar á ný. Fram í miðja næstu viku ráða svo suðlægar áttir ríkjum með vætu af og til.

Veðurhorfur á landinu:

Norðan 10-15 m/s en heldur hvassara í vindstrengjum suðaustantil. Él norðanlands, en yfirleitt léttskýjað á Suður- og Vesturlandi. Hiti 0 til 7 stig. Lægir í kvöld, léttir til og frystir víða um land í nótt.

Breytileg átt, 5-10 m/s og að mestu bjartviðri, en skýjað með köflum norðaustanlands og stöku skúr á Suðausturlandi.

Vaxandi suðaustanátt eftir hádegi, 10-18 á Suður- og Vesturlandi annað kvöld. Þykknar upp með sunnan- og vestantil seinnipartinn og fer að rigna vestast seint annað kvöld. Hiti í kringum frostmark í fyrramálið, en hlýnandi sunnan- og vestanlands upp úr hádegi.

Á föstudag:

Hæg breytileg átt og víða bjartviðri. Hiti 2 til 7 stig, en kringum frostmark norðaustantil. Gengur í suðaustan 10-15 m/s og fer að rigna sunnan- og vestanlands um kvöldið.

Á laugardag:

Suðlæg átt, 10-18 m/s. Víða rigning, en þurrt að mestu um landið norðaustanvert. Hiti 4 til 11 stig, hlýjast norðaustanlands.

Á sunnudag:

Sunnanátt og rigning austantil á landinu, en hægari vindur og stöku skúrir á vesturhelmingi landsins. Hiti 4 til 11 stig, svalast á Vestfjörðum.

Á mánudag:

Fremur hæg suðlæg átt og skúrir sunnan- og vestanlands, annars bjart með köflum og þurrt. Hiti 2 til 8 stig, hlýjast syðst.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×