Innlent

Mun fleiri Co­vid-flutningar en undan­farnar nætur

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sérútbúinn bíll slökkviliðsins til Covid-flutninga sést hér á mynd, ásamt sjúkraflutningamanni.
Sérútbúinn bíll slökkviliðsins til Covid-flutninga sést hér á mynd, ásamt sjúkraflutningamanni. Slökkviliðið á HBS

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu sinnti níu Covid-tengdum sjúkraflutningum síðasta sólarhringinn, þar af sjö á næturvaktinni. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu eru þetta mun fleiri slíkir flutningar en hafa verið undanfarnar nætur.

Covid-tengdir sjúkraflutningar eru þó hvorki ávísun á kórónuveirusmit sjúklingsins sem fluttur er, né innlögn inn á sjúkrahús, líkt og Már Kristjánsson yfirlæknir smitsjúkdómalækninga á Landspítalanum útskýrði í samtali við Vísi í sumar.

„Þegar fólk er með óútskýrð öndunarfæraeinkenni eða með einhver einkenni sem viðbragðsaðili eða læknir telur að gætu hugsanlega verið Covid, þá er gripið til þessa. Það er, að fólk er flutt með sérstökum viðbúnaði og sérstök aðgæsla höfð,“ sagði Már.

Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði voru líklega einn eða tveir sem fluttir voru með sérstökum Covid-viðbúnaði í nótt með staðfest kórónuveirusmit. Í hinum tilfellunum hafi verið grunur um smit. Þegar slíkur grunur er til staðar eru sjúklingar fluttir í sérútbúnum Covid-bílum og fyllstu sóttvarna gætt í hvívetna. Þá eru venjulega einn til þrír sjúkraflutningamenn í hverju útkalli eftir stöðu þess sem fluttur er.

Tveir liggja inni á sjúkrahúsi vegna kórónuveirunnar samkvæmt tölum gærdagsins á Covid.is. Hvorugur þeirra hefur verið sagður alvarlega veikur. 215 eru í einangrun með veiruna á landinu en mjög hefur fjölgað í hópi smitaðra síðustu daga.


Tengdar fréttirAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.