Enski boltinn

Klopp skammaði varamennina fyrir að fagna rauða spjaldinu sem Christiansen fékk

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jürgen Klopp var ekki sáttur með varamenn Liverpool þegar þeir glöddust yfir rauða spjaldinu sem Andreas Christiansen fékk.
Jürgen Klopp var ekki sáttur með varamenn Liverpool þegar þeir glöddust yfir rauða spjaldinu sem Andreas Christiansen fékk. getty/Andrew Powell

Jürgen Klopp skammaði varamenn Liverpool þegar þeir fögnuðu rauða spjaldinu sem Andreas Christiansen, varnarmaður Chelsea, fékk í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni í gær. Liverpool vann leikinn, 0-2.

Undir lok fyrri hálfleiks braut Christiansen á Sadio Mané sem var að sleppa í gegnum vörn Chelsea. Paul Tierney gaf Christiansen fyrst gula spjaldið en eftir að hafa skoðað atvikið á sjónvarpsskjá breytti hann dómnum og rak Danann af velli.

Varamenn Liverpool sem sátu uppi í stúku á Stamford Bridge kættust mjög þegar Christiansen fékk rauða spjaldið og fögnuðu því. Það var Klopp ekki sáttur með, skammaði þá og sagði að svona gerðu menn aldrei.

Mané tryggði Liverpool sigur með tveimur mörkum í upphafi seinni hálfleiks. Það fyrra kom eftir frábæra sókn Englandsmeistaranna en það síðara eftir skelfileg mistök Kepa Arrizabalaga í marki Chelsea.

Liverpool hefur unnið báða leiki sína í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu. Næsti deildarleikur liðsins er gegn Arsenal á Emirates eftir viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×