Erlent

Annar þing­maður Repúblikana mót­mælir fyrir­hugaðri til­nefningu til Hæsta­réttar

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Lisa Murkowski öldungadeildarþingmaður Repúblikana segist ekki telja það rétt að tilnefna nýjan dómara í Hæstarétt svo stutt í kosningar.
Lisa Murkowski öldungadeildarþingmaður Repúblikana segist ekki telja það rétt að tilnefna nýjan dómara í Hæstarétt svo stutt í kosningar. Getty/Al Drago

Joe Biden, forsetaframbjóðandi Demókrata, hyggst ræða við Donald Trump Bandaríkjaforseta um áætlun hans um að tilnefna nýjan dómara til Hæstaréttar Bandaríkjanna áður en kjörtímabili hans lýkur.

Trump sagði í dag að hann ætli að tilnefna nýjan dómara til að taka sæti Ruth Bader Ginsburg í Hæstarétti, en hún lést á föstudag. Demókratar hafa gagnrýnt forsetann harðlega og hafa bent á að árið 2016 þegar skipa þurfti nýjan dómara í Hæstarétt hafi Mitch McConnel, forseti öldungadeildar Bandaríkjaþings, stöðvað atkvæðagreiðslu um tilnefningu Barack Obama þáverandi forseta, og sagði það óviðeigandi að skipa nýjan dómara á kosningaári.

Eins og staðan er í dag eru þrír dómaranna í hæstarétti taldir frjálslyndir og fimm íhaldssamir og kæmi til þess að Trump tilnefndi arftaka Ginsburg yrðu íhaldssamir dómarar sex á móti þremur frjálslyndum. Trump hefur þegar skipað tvo dómara í Hæstarétt, þá Neil Gorsuch og Brett Kavanaugh.

Lisa Murkowski, öldungadeildarþingmaður Repúblikana sagði í dag að hún væri mótfallin fyrirætlunum Trump og er hún annar þingmaðurinn í meirihluta McConnel til þess að lýsa yfir andstöðu sinni við fyrirhugaðri tilnefningu Trump. Susan Collins lýsti yfir andstöðu sinni í gær. Rebúblikanar eru með 53 þingmenn í öldungadeildinni á móti 47 þingmönnum Demókrata.

„Ég studdi það ekki þegar dómari var tilnefndur átta mánuðum fyrir forsetakosningarnar 2016 til þess að fylla upp í sæti Scalia heitins,“ sagði Murkowski í yfirlýsingu í dag. „Nú er enn styttra í forsetakosningarnar – það eru tæpir tveir mánuðir í þær – og ég tel að það sama eigi að gilda.“

Antonin Scalia, dómari í Hæstarétti Bandaríkjanna, féll frá í febrúar 2016 en McConnell stöðvaði atkvæðagreiðslu um tilnefningu Barack Obama til Hæstaréttar, sem var Merrick Garland.


Tengdar fréttir

Segist ætla að tilnefna konu til Hæstaréttar

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segist ætla að tilnefna konu til að taka við sæti Ruth Bader Ginsburg í Hæstarétti Bandaríkjanna. Hann segist þar að auki ætla að tilnefna konuna sem fyrst.

Heitir því að greiða atkvæði um nýjan hæstaréttardómara

Mitch McConnell, forseti öldungadeildar Bandaríkjaþings, segir að ef Donald Trump, forseti, tilnefni mann til að taka við af Ruth Bader Ginsburg í Hæstarétti Bandaríkjanna, muni öldungadeildin greiða atkvæði um tilnefninguna.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.