Son og Kane völtuðu yfir Southampton í seinni hálfleik

Son og Kane fóru á kostum í dag.
Son og Kane fóru á kostum í dag. getty/Tottenham Hotspur FC

Tottenham svaraði fyrir sig í dag eftir tap í fyrstu umferðinni í ensku úrvalsdeildinni. Liðið vann að lokum 5-2 sigur á Southampton eftir að síðarnefnda liðið komst yfir snemma í leiknum.

Danny Ings kom heimamönnum yfir á 32. mínútu, en áður höfðu bæði hann og Harry Kane skorað sitthvort markið sem var dæmt af. 

Í blálokin á fyrri hálfleik jafnaði Heung-Min Son metin og staðan 1-1 í hálfleik. Son átti heldur betur eftir að koma við sögu í seinni hálfleiknum.

Á 47. mínútu kom Son Tottenham yfir og á 64. mínútu var hann búinn að fullkomna þrennuna. Hann var þó ekki hættur, á 73. mínútu skoraði hann fjórða mark sitt í leiknum og fjórða mark Tottenham, eftir sendingu frá Harry Kane. Það merkilega er að Harry Kane átti stoðsendinguna í öllum mörkum Son í leiknum. 

Kane skoraði síðan sjálfur fimmta mark Tottenham á 82. mínútu áður en Danny Ings minnkaði muninn af vítapunktinum í uppbótartíma. Magnaður leikur hjá Heung-Min Son og Harry Kane. 

Tottenham er með þrjú stig eftir fyrstu tvo leikina en Southampton hefur tapað báðum sínum leikjum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.