Íslenski boltinn

Fyrrverandi landsliðskona í fótbolta að ljúka doktorsprófi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir í vináttulandsleik Íslands og Bandaríkjanna 2005.
Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir í vináttulandsleik Íslands og Bandaríkjanna 2005. getty/Victor Decolongon

Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir, fyrrverandi atvinnu- og landsliðskona í fótbolta, ver doktorsritgerð sína í líf- og læknavísindum við Læknadeild Háskóla Íslands næsta föstudag.

Ritgerð Ólínu nefnist „Vitrænt mat og endurhæfing ungs fólks eftir geðrof“. Markmið doktorsverkefnisins voru að leggja mat á vitræna getu, líðan og færni í daglegu lífi hjá öllum þeim sem sóttu þjónustu á Laugarási, deild innan Landspítala sem sérhæfir sig í meðferð og endurhæfingu ungs fólks eftir geðrof, á árunum 2015 - 2017, og kanna forspárgildi vitrænna þátta fyrir sjálfsmati og mati aðstandenda á færni í daglegu lífi, (2) að kanna skammtíma- og langtímaáhrif vitrænnar endurhæfingar með félagsskilningsþjálfun (VEF) á vitræna þætti, líðan og færni í daglegu lífi, (3) meta innleiðingu meðferðarinnar með tilliti til hentugleika, áreiðanleika og viðhalds.

Ólína spilaði 70 landsleiki og skoraði tvö mörk á árunum 2003-14. Hún lék með íslenska landsliðinu á EM 2009 og 2013.

Hún hóf ferilinn með Grindavík en gekk í raðir Breiðabliks 2002. Ólína lék með Blikum í fjögur ár og KR í tvö ár.

Ólína lék með Örebro í Svíþjóð á árunum 2009-12 og Chelsea á Englandi 2013. Hún kom svo aftur heim 2013 og gekk í raðir Vals. Ólína lék með Fylki 2015 og sína síðustu leiki á ferlinum með KR 2017. Hún lék alls 148 leiki í efstu deild á Íslandi og skoraði 38 mörk.

Doktorsvörn Ólína fer fram í Hátíðarsal Háskóla Íslands klukkan 14:00 næsta föstudag. Andmælendur eru Dr. Lisa M. Wu, dósent við Aarhus Institute of Advanced Studies í Danmörku, og Dr. Ragnar Pétur Ólafsson, dósent við Sálfræðideild Háskóla Íslands.

Umsjónarkennari var Dr. Berglind Guðmundsdóttir, prófessor við Læknadeild, og leiðbeinandi Brynja M. Magnúsdóttir, dósent við Háskólann í Reykjavík. Meðleiðbeinandi var Engilbert Sigurðsson, prófessor og forseti Læknadeildar Háskóla Íslands. Auk hans sátu í doktorsnefnd Dr. David L. Roberts, dósent við University of Texas Health Science Center, og Dr. Elizabeth W. Twamley, prófessor við University of California, La Jolla.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.