Erlent

Hriktir í stoðum pólsku ríkis­stjórnarinnar vegna dýra­réttinda

Kjartan Kjartansson skrifar
Jaroslaw Kaczynski er leiðtogi Laga og réttlætis en situr þó hvorki í ríkisstjórn né á þingi. Engu að síður er almennt litið svo á í Póllandi að Kaczynski hafi flest völd í höndum sér.
Jaroslaw Kaczynski er leiðtogi Laga og réttlætis en situr þó hvorki í ríkisstjórn né á þingi. Engu að síður er almennt litið svo á í Póllandi að Kaczynski hafi flest völd í höndum sér. AP/Czarek Sokolowski

Útlit er fyrir að samsteypustjórnin í Póllandi gæti sprungið eftir að stærsti stjórnarflokkurinn Lög og réttlæti hótaði því að slíta samstarfinu vegna andstöðu samstarfsflokkanna við frumvarp um réttindi dýra. Aðalráðgjafi forsætisráðherrans varar við því að boða gæti þurft til nýrra kosninga.

Samstarfsflokkar Laga og réttlætis sem koma af miðju og ystra hægri jaðri pólskra stjórnmála hafa ekki viljað styðja frumvarp um dýraréttindi sem myndi banna loðdýrarækt og kjötframleiðslu að sið gyðinga annars vegar og múslima hins vegar til útflutnings, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Frumvarpið er vinsælt á meðal ungra Pólverja sem Lög og réttlæti vill ná til. Samstarfsflokkarnir óttast aftur á móti að það eigi eftir að kosta þá stuðning bænda í dreifðari byggðum landsins.

Frumvarpið var samþykkt með atkvæðum þingmanna Laga og réttlætis og stjórnarandstöðunnar í gær.

„Ákvarðanir gærdagsins leiddu til stöðu þar sem við vitum ekki hvort að samsteypustjórnin sé til. Minnihlutastjórn gæti ekki verið við völd út kjörtímabilið, það þyrfti að flýta kosningum,“ segir Michal Dworczyk, aðalráðgjafi forsætisráðherra landsins.

Ryszard Terlecki, leiðtogi Laga og réttlætis á þingi, segir að samsteypustjórnina „nánast ekki til“. Leiðtogar flokksins kæmu saman til fundar á mánudag til að ræða næstu skref.

Samsteypustjórnin hefur verið við völd frá 2015. AP-fréttastofan segir að spenna innan hennar hafi þó farið vaxandi undanfarna mánuði. Jaroslaw Gowin, leiðtogi annars samstarfsflokksins, sagði af sér sem varaforsætisráðherra í apríl vegna andstöðu hans við áform ríkisstjórnarinnar um að láta forsetakosningar fara fram samkvæmt áætlun í maí þrátt fyrir kórónuveirufaraldurinn. Kosningunum var frestað fram á sumarið eftir japl, jaml og fuður.

Upp úr sauð í vikunni þegar Jaroslaw Kaczynski, leiðtogi Laga og réttlætis, sem á þó ekki sæti í ríkisstjórninni hóf viðræður um uppstokkun á henni til að fækka ráðuneytum í nafni skilvirkni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×