Fótbolti

Sara tilnefnd sem besti miðjumaður Meistaradeildarinnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir fagnar marki sínu, hóflega þó, í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu þar sem Lyon sigraði Wolfsburg, 3-1.
Sara Björk Gunnarsdóttir fagnar marki sínu, hóflega þó, í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu þar sem Lyon sigraði Wolfsburg, 3-1. EPA/GABRIEL BOUYS

Sara Björk Gunnarsdóttir er ein þriggja sem er tilnefnd sem besti miðjumaður Meistaradeildar Evrópu. Auk Söru eru Dzsenifer Marozsán, núverandi samherji hennar hjá Lyon, og Alexandra Popp, fyrrverandi samherji hennar hjá Wolfsburg, tilnefndar.

Einnig eru veitt verðlaun fyrir besta markvörð, varnarmann og sóknarmann Meistaradeildarinnar. Þetta er í fyrsta sinn sem þessi verðlaun verða veitt í Meistaradeild kvenna en þau hafa verið veitt í Meistaradeild karla síðustu ár.

Sara er eini leikmaðurinn af þeim tólf sem eru tilnefndir sem lék með tveimur liðum í Meistaradeildinni tímabilið 2019-20. Hún lék þrjá leiki með Wolfsburg og þrjá með Lyon sem varð Evrópumeistari fimmta árið í röð. Sara skoraði í 3-1 sigri Lyon á Wolfsburg í úrslitaleiknum á Spáni.

Sex af þeim tólf leikmönnum sem eru tilnefndir léku með Lyon tímabilið 2019-20. Þjálfarar liðanna átta sem komust í úrslitakeppni Meistaradeildarinnar auk 20 blaðamanna sem sérhæfa sig í umfjöllun um kvennabolta tóku þátt í valinu.

Greint verður frá því hverjar hljóta verðlaunin 1. október næstkomandi. Þá verður einnig opinberað hverjir voru valdar leikmaður og þjálfari ársins af UEFA.

Leikmenn ársins í Meistaradeildinni

Markverðir:

  • Sarah Bouhaddi (Lyon)
  • Christiane Endler (PSG)
  • Sandra Panos (Barcelona)

Varnarmenn:

  • Lucy Bronze (Lyon)
  • Lena Goessling (Wolfsburg)
  • Wendie Renard (Lyon)

Miðjumenn:

  • Sara Björk Gunnarsdóttir (Wolfsburg/Lyon)
  • Dzsenifer Marozsán (Lyon)
  • Alexandra Popp (Wolfsburg)

Sóknarmenn:

  • Delphine Cascarino (Lyon)
  • Pernille Harder (Wolfsburg)
  • Vivianne Miedema (Arsenal)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×