Enski boltinn

Stjóri Bayern staðfestir að Thiago sé á leið til Liverpool

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Thiago með Evrópumeistarabikarinn eftir sigur Bayern München á Paris Saint-Germain í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í síðasta mánuði.
Thiago með Evrópumeistarabikarinn eftir sigur Bayern München á Paris Saint-Germain í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í síðasta mánuði. getty/Michael Regan

Hansi Flick, knattspyrnustjóri Bayern München, hefur staðfest að Thiago Alcantara sé á leið til Liverpool.

„Thiago er stórkostlegur leikmaður sem var mjög mikilvægur fyrir okkur. Við í þjálfarateyminu nutum þess að vinna með honum. Ég get bara óskað Liverpool til hamingju með að fá frábæran leikmann og frábæran strák,“ sagði Flick á blaðamannafundi í dag.

Thiago skrifar væntanlega undir fjögurra ára samning við Liverpool. Talið er að Englandsmeistararnir greiði Bayern 20 milljónir punda fyrir spænska landsliðsmanninn. Hann átti eitt ár eftir af samningi sínum við Bayern.

Hinn 29 ára Thiago gekk í raðir Bayern frá Barcelona 2013. Á sínu síðasta tímabili með Bæjurum vann hann þrefalt með liðinu. Síðasti leikur Thiagos með Bayern var úrslitaleikur Meistaradeildar Evrópu þar sem liðið vann Paris Saint-Germain, 1-0.

Thiago varð sjö sinnum þýskur meistari með Bayern og fjórum sinnum bikarmeistari. Hann vann einnig nokkra titla með Barcelona.

Liverpool vann Leeds United, 4-3, í fyrsta leik sínum í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu. Næsti leikur liðsins er gegn Chelsea á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×