Fótbolti

Segir að ekki sé horft til heilsu leikmanna

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Eric Dier í leiknum gegn Everton um síðustu helgi.
Eric Dier í leiknum gegn Everton um síðustu helgi. Charlotte Wilson/ Getty Images

Vegna kórónufaraldursins þá fengu fótboltamenn í stærstu liðum Evrópu nær ekkert sumarfrí. Þá var Eric Dier, leikmaður Tottenham Hotspur í ensku úrvalsdeildinni, hluti af leikmannahóp Englands sem mætti Íslandi og Danmörku í Þjóðadeildinni.

Dier hefur nú gagnrýnt það mikla leikjaálag sem sett er á stærstu lið ensku úrvalsdeildarinnar – og þar af leiðandi leikmenn þeirra – í upphafi móts. Hann segir að forráðamenn úrvalsdeildarinnar séu ekki með hagsmuni leikmanna að leiðarljósi.

BBC greindi frá.

Dier er sem stendur með Tottenham í Búlgaríu þar sem liðið mætir Lokomotiv Plovdiv í undankeppni Evrópudeildarinnar. Liðið gæti spilað alla þriðjudaga og fimmtudaga næstu þrjár vikurnar fari það svo að það fari áfram í Evrópudeildinni sem og enska deildarbikarnum.

„Ef þú horfir á leikjaniðuröðunina þá er ljóst að velferð leikmanna er ekki höfð að leiðarljósi,“ sagði Dier en Tottenham á fjóra leiki á næstu átta dögum.

Þá hjálpar það ekki að leikmannahópur liðsins er þunnskipaður og José Mourinho – þjálfari liðsins – er ekki mikið fyrir að breyta liði sínu milli leikja. Dier er reyndar ekki á sama máli en hann telur að liðið hafi „frábæra breidd og mikil gæði“ í leikmannahópi sínum.

Alls gæti Tottenham spilað níu leiki frá 13. september til 3. október. Það telur Dier fásinnu.

„Þetta er almenn skynsemi ef þú hugsar út í það. Það er eins og þeim sé alveg sama um leikmennina,“ segir hann að lokum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.